Komumst oft í gírinn eftir að fá á okkur mark

Katrín Ásbjörnsdóttir og Emma Checker í Garðabænum í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir og Emma Checker í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, var að vonum ánægð með 2:1-endurkomusigur liðsins gegn Selfossi í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

„Mér fannst við ekki byrja svo vel og þær voru sterkari og pressuðu svolítið á okkur. Svo þegar leið á fyrri hálfleikinn og í seinni hálfleik fannst mér við alveg taka yfir og eiga sigurinn skilið,“ sagði Anna María í samtali við mbl.is eftir leik.

Stjarnan hefur nú unnið sex sigra í deildinni á tímabilinu, þar af fjóra með markatölunni 2:1. Er það einhver ákveðin uppskrift sem Stjörnukonur eru að fara eftir sem veldur því að leikirnir enda á þann veg?

„Já, svo virðist vera. Við lendum oft undir og þá komumst við í gírinn, eftir að hafa fengið mark á okkur. En það er gott að ná að skora tvö mörk og vinna leikinn, það er það sem skiptir máli,“ sagði hún.

Eftir að hafa verið marki undir í hálfleik jöfnuðu Stjörnukonur metin snemma í síðari hálfleiknum, þegar Úlfa Dís Úlfarsdóttir skoraði fyrra mark sitt í leiknum.

„Það var sætt að sjá hann inni af því að höfðum alveg fengið færi til að skora, bæði í fyrri hálfleik og seinni. Það var mjög sætt að sjá boltann inni í bæði skiptin,“ bætti Anna María við, en sigurmark Úlfu Dísar kom svo á 80. mínútu.

Anna María Baldursdóttir í leik með Stjörnunni gegn Val fyrr …
Anna María Baldursdóttir í leik með Stjörnunni gegn Val fyrr í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurinn fleytir Stjörnunni upp í þriðja sætið, þar sem liðið vill vitanlega vera að hennar sögn. „Við stefnum á það og viljum bara taka þrjú stig í næsta leik, það er alltaf stefnan. Þannig að við höldum bara áfram,“ sagði Anna María að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert