Úlfa Dís gerði út af við Selfyssinga

Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttunni í Garðabænum í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttunni í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Úlfa Dís Úlfarsdóttir var hetja Stjörnunnar þegar hún skoraði bæði mörk liðsins í 2:1 endurkomusigri gegn Selfossi í 12. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Garðabænum í kvöld. Bæði mörk hennar komu í síðari hálfleik eftir að Selfoss hafði leitt í leikhléi.

Eftir stundarfjórðungs leik tóku gestirnir forystuna. Caity Heap fékk þá að leika með boltann óáreitt í gegnum miðjuna og var enn fremur langt fyrir utan vítateiginn þegar hún þrumaði boltanum einfaldlega upp í markvinkilinn nær, glæsilegt mark.

Skömmu síðar voru Stjörnukonur hársbreidd frá því að jafna metin. Boltinn barst þá til Gyðu Kristínar Gunnarsdóttur eftir laglegan undirbúning Örnu Dísar Arnþórsdóttur, vinstri fótar skot Gyðu Kristínar virtist stefna rakleitt í samskeytin en boltinn í þverslána og út.

Stjörnukonur réðu lögum og lofum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, þó Selfyssingar væru skæðir inn á milli í skyndisóknum, en Garðbæingum láðist að skapa sér nægilega opin færi til þess að ná inn jöfnunarmarki.

Selfyssingar voru því einu marki yfir í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum, á 54. mínútu, kom hins vegar jöfnunarmark Stjörnukvenna. Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir braut þá á Unni Dóru Bergsdóttur á miðjunni og fékk boltann í höndina að auki, Selfyssingar voru æfir og vildu fá aukaspyrnu en ekkert var dæmt.

Ingibjörg Lúcía náði boltanum og renndi honum til Katrínar Ásbjörnsdóttur, sem kom honum áfram til Úlfu Dísar Úlfarsdóttur inn í vítateig og hún negldi boltanum með vinstri fæti upp í þaknetið á nærstönginni, 1:1.

Stjörnukonur settu Selfyssinga undir mikla pressu og unnu boltann gjarna ofarlega á vellinum líkt og var tilfellið í jöfnunarmarkinu, þó það hafi að vísu ekki átt að standa, og fengu fjölda álitlegra tækifæra til þess að taka forystuna.

Heimakonur uppskáru loks annað mark sitt á 80. mínútu. Ingibjörg Lúcía átti þá laglega stungusendingu inn fyrir á Úlfu Dís sem sá að Benedicte Håland stóð framarlega í markinu og gerði sér lítið fyrir og vippaði boltanum stórglæsilega yfir hana af hægri kantinum, 2:1.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og Stjörnukonur eru þar með komnar upp í þriðja sæti deildarinnar.

Úlfa Dís hóf leikinn djúp á miðjunni en í hálfleik var hún færð fremst á miðjuna þar sem hún blómstraði hreinlega og uppskar tvö verðskulduð mörk, en hún ógnaði stöðugt með hættulegum hlaupum inn fyrir vörn Selfyssinga.

Stjarnan 2:1 Selfoss opna loka
90. mín. Heiða Ragney Viðars­dótt­ir (Stjarnan) á skot sem er varið Skýtur í samherja og Haaland grípur svo boltann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert