„Tókum ekki góðar ákvarðanir á lokamínútunum“

Vilhjálmur á hliðarlínunni í kvöld.
Vilhjálmur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta er náttúrlega mjög svekkjandi endir á leiknum en við vissum alveg að þær myndu gera allt sem þær gætu til þess að reyna að jafna leikinn,“ sagði svekktur Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari Breiðabliks eftir 2:2-jafntefli gegn Þór/KA á SaltPay-vellinum í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld.

„Við einhvern veginn bara tókum ekki góðar ákvarðanir á lokamínútunum og því fór sem fór,“ bætti Vilhjálmur við. Þór/KA jafnaði leikinn með síðustu spyrnu leiksins þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir potaði boltanum yfir línuna eftir hornspyrnu Jakobínu Hjörvarsdóttur. 

SaltPay-völlurinn var erfiður vegna mikillar rigningar á Akureyri síðustu daga en einnig fór fram leikur þar í gærkvöldi svo hann hafði ekki fengið alveg að jafna sig eftir hann. Leikmenn áttu erfitt með að fóta sig á vellinum og Vilhjálmur misánægður með spilamennsku síns liðs.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn betri hjá okkur, seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður. Við tókum ekki góðar ákvarðanir sóknarlega. En völlurinn er náttúrlega ekki góður hérna. Hann er ójafn, blautur og myrkur á honum. Það er alveg hægt að pirra sig á ýmsu en það er ekkert því að kenna að við missum þetta niður. Við bara hefðum átt að gera betur.“

mbl.is