Vorum að skamma í stað þess að hvetja

Barbára Sól Gísladóttir, leikmaður Selfoss.
Barbára Sól Gísladóttir, leikmaður Selfoss. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við bara frekar andlausar og þreyttar,“ sagði Barbára Sól Gísladóttir, vinstri bakvörður Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Garðabænum í kvöld.

„Þetta var þriðji leikurinn á átta dögum en það á ekki að skipta neinu máli. Það var andleysi í liðinu og við vorum alltaf að skamma hver aðra í staðinn fyrir að peppa hver aðra,“ hélt Barbára Sól áfram.

Spurð hvað hafi vantað upp á hvað spilamennsku Selfyssinga varðar sagði hún: „Við vorum svolítið kærulausar aftast í vörninni, vorum að senda þversendingar og þær lásu þær og stálu boltanum.

Mér fannst vanta svolitla ákefð. Við fengum oft nægan tíma en nýttum ekki tækifærin til þess að hraða spilinu. Við spiluðum bara hægt og keyrðum þær ekki út.“

Selfoss missti með tapinu Stjörnuna upp fyrir sig og er liðið nú í fimmta sæti. Pakkinn er þó þéttur þar sem Stjarnan er með 19 stig í þriðja sæti og Þróttur úr Reykjavík og Selfoss koma þar á eftir, bæði með 18 stig en Þróttur með betri markatölu í fjórða sætinu.

Barbára Sól sagði Selfyssinga því síður en svo af baki dottna í baráttunni um þriðja sætið. „Við stefnum hátt í töflunni. Það er bara áfram gakk og næsti leikur,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is