Breiðablik sló út Austria Wien og mætir Aberdeen

Kristinn Steindórsson á leiðinni að marki Austria Wien í leiknum …
Kristinn Steindórsson á leiðinni að marki Austria Wien í leiknum í dag. mbl.is/Unnur Karen

Breiðablik er komið í þriðju umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir glæsilegan sigur á Austria Wien frá Austurríki á Kópavogsvelli í dag, 2:1.

Kópavogsliðið mætir Aberdeen frá Skotlandi í þriðju umferðinni næstu tvo fimmtudaga og fer fyrri leikurinn fram á Kópavogsvelli á fimmtudaginn kemur, 5. ágúst.

Blikar mættu greinilega til leiks staðráðnir í því að halda áfram þar sem frá var horfið í góðum leik þeirra í Vínarborg fyrir viku. Halda  boltanum í sínum röðum, spila yfirvegað og stjórna leiknum. Þeim tókst það áfram með ágætum lengi vel.

Þeir voru ekki lengi að uppskera því strax á 6. mínútu náðu þeir grænklæddu forystunni með einföldu og glæsilegu marki. Höskuldur Gunnlaugsson sendi fyrir mark Austria frá hægri og Kristinn Steindórsson kom á ferðinni inn við vítapunkt og afgreiddi boltann viðstöðulaust í vinstra hornið, 1:0.

Breiðablik var meira með boltann framan af en Austria átti ágætan kafla þar sem liðið náði að setja nokkra pressu á Blikana, án þess þó að skapa sér marktækifæri.

Gísli Eyjólfsosn sækir að marki Austria í leiknum í kvöld.
Gísli Eyjólfsosn sækir að marki Austria í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Árni kemur Blikum í 2:0

Í staðinn juku Blikar forystuna á 24. mínútu. Kristinn Steindórsson fékk sendingu í hraðri sókn inn að vítateignum vinstra megin, lék í átt að endamörkum og sendi síðan inn í markteiginn þar sem Árni Vilhjálmsson kom á ferðinni og skoraði, 2:0.

Blikum tókst vel að halda boltanum það sem eftir var fyrri hálfleiks og pirringurinn í liði Austria jókst með hverri mínútu. Fimm gul spjöld fóru á loft í fyrri hálfleiknum, þrjú þeirra á Austurríkismennina. Besta færið á lokakafla hálfleiksins fékk Höskuldur Gunnlaugsson þegar dæmd var aukaspyrna rétt utan vítateigs Austria en hann skaut yfir markið úr henni. Staðan 2:0 í hálfleik.

Austria fékk ágætt færi á sjöttu mínútu síðari hálfleiks þegar Aleksandar Jukic skaut úr aukaspyrnu af 20 metra færi en Anton Ari Einarsson var vel á verði og sló boltann í horn.

Austurríkismennirnir fengu nokkrar hættulegar sóknir sem enduðu í tvígang með skotum Benedikts Pichlers frá vítateig en bæði voru slök og beint í hendurnar á Antoni í marki Blika. Pressan á Blikana jókst jafnt og þétt en þeir réðu áfram ágætlega við aðstæður.

Ódýrt mark Austria galopnar leikinn

En á 68. mínútu fékk Austria ódýrt mark. Blikar voru að spila út úr vörninni þegar Viktor Örn Margeirsson sendi boltann beint á Dominik Fitz við vítateigslínuna. Hann skaut strax í vinstra hornið, 2:1.

Austria setti aukna pressu á Blikana eftir því sem leið á hálfleikinn en gekk illa að komast í færi.

Gísli Eyjólfsson komst í gott færi við vítateigslínu á 88. mínútu og átti fast skot rétt framhjá stönginni vinstra megin.

Blikar stóðust mikinn sóknarþunga austurrísku gestanna í sex mínútna uppbótartíma og gátu fagnað ærlega í leikslok ásamt 700 stuðningsmönnum sínum sem fylltu þau sæti sem mátti fylla á Kópavogsvelli í dag.

Þorðu og vildu og uppskáru eftir því

Blikar héldu sig sem fyrr við sín gildi, hikuðu ekki við að spila boltanum út frá markverði og vörn, og Óskar Hrafn Þorvaldsson er búinn að þróa þennan fótbolta liðsins á sannfærandi hátt. Það er djarft að beita þessari spilamennsku gegn atvinnuliði sem á að vera sterkara á pappírunum, jafnvel mun sterkara, en Blikar sýndu að auk þess að þora og vilja, þá höfðu þeir einstaklingsgæðin til þess að framkvæma það sem þeir vildu framkvæma.

Þeim varð þó hált á þessu þegar Austria komst inn í leikinn með óvæntu marki en sem betur fór komu þessi einu mistök sem segja má að Blikar hafi gert í þessu tveggja leikja einvígi ekki í bakið á þeim.

Liðsheild Breiðabliks var gríðarlega sterk í þessum leik eins og í þeim fyrri en hornsteinar liðsins voru Damir Muminovic í miðri vörninni, Höskuldur Gunnlaugsson í sinni frjálsu hægribakvarðarstöðu lengst af og þeir Viktor Karl Einarsson og Oliver Sigurjónsson sem voru mjög hreyfanlegir og héldu flæði í spilinu á miðjunni. Kristinn Steindórsson og Árni Vilhjálmsson voru síðan stöðugt tilbúnir til að ógna og sá um að skora mörkin.

Þessi úrslit eru einhver þau bestu hjá íslensku félagsliði á seinni árum og Breiðablik hefur nú í tvígang slegið út andstæðinga frá Austurríki. Núna bíður Blikanna nýtt ævintýri, tveir leikir gegn Aberdeen frá Skotlandi. Blikar hafa með þremur sigrum og jafntefli fært Íslandi og öðrum liðum í deildinni hér á landi gríðarlega dýrmæt stig á styrkleikalista UEFA, og bætt í sinn reynslubanka svo um munar. Þessi frammistaða þeirra raskar væntanlega Íslandsmótinu eitthvað en það er seinni tíma vandamál fyrir Kópavogsliðið.

Breiðablik 2:1 Austria Wien opna loka
90. mín. Damir Muminovic liggur eftir að hafa fengið þungt högg í sókn Austria, á miðjum vallarhelmingi Blika. Leikurinn heldur áfram góða stund en er loks stöðvaður og Damir fær aðhlynningu. Hann heldur áfram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert