Hversu mörgum stigum þarf að safna?

Kjartan Stefánsson þjálfari Fylkis.
Kjartan Stefánsson þjálfari Fylkis. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kjartan Stefánsson þjálfari Fylkis segir að áhugavert verði að sjá hversu mörg stig komi til með að þurfa til að halda keppnisréttinum í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu að ári. 

Fylkir er áfram með 9 stig eins og Keflavík eftir tap gegn Val í kvöld, 1:5, og eru liðin tveimur stigum á eftir Tindastóli. Kjartan telur að lið muni þurfa að fá fleiri stig en fimmtán til að halda sæti sínu í deildinni. 

„Einhvern tíma þurfti fimmtán stig eða fleiri til að halda sér í deild en ég held að það brotni í haust. Ég held að liðið sem mun hafna í 9. sæti fari yfir þá tölu. Það verður forvitnilegt að sjá hversu mörg stig mun þurfa til að halda sér uppi í haust. Það skyldi þó aldrei vera að það muni þurfa 20 stig til þess. Ég veit það ekki en þetta verður jafnt. Ég held að liðin sem eru fyrir neðan 5. sæti geti litið á hvern einasta leik sem úrslitaleik,“ sagði Kjartan þegar mbl.is tók hann tali í Árbænum í kvöld. 

Ída Marín Hermannsdóttir lék með Val gegn sínu gamla liði …
Ída Marín Hermannsdóttir lék með Val gegn sínu gamla liði í kvöld. Hún er með boltann en Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis er til varnar. mbl.is/Unnur Karen

Fylkir komst í 1:0 í upphafi leiks í kvöld en fékk á sig þrjú mörk á nokkurra mínútna kafla og var staðan orðin 1:3 eftir sautján mínútur. „Maður er svekktur yfir því að fá á sig fimm mörk en ég er fúlastur yfir því að við fáum á okkur þrjú mörk á skömmum tíma. Við brotnum fullauðveldlega. Svekkelsið felst í því. Vissulega setti góður leikmaður tvö mörk [Mist Edvardsdóttir] og þetta var vel útfært hjá Val en ég er svolítið svekktur yfir því. Við höfðum byrjað vel og vorum í floti fram að þessum hornspyrnum sem skiluðu Val fyrstu tveimur mörkunum. Við misstum jafnframt þor. Við fengum pláss á miðjunni og fengum tækifæri til að snúa á miðjunni en spiluðum boltanum ítrekað til baka. Það sést á leik liðsins að það vantar smá þor.“

Þetta er ef til vill skólabókardæmi um að þegar lið er í fallsæti skorti leikmenn sjálfstraust til að framkvæma? „Já já. Þegar illa gengur getur verið vandamál að snúa genginu við þegar margir leikmenn eru ungir. Við þurfum að vinna svolítið með sjálfstraustið og þorið,“ sagði Kjartan enn fremur við mbl.is. 

mbl.is