Leikjatörnin í júlí gerði Valsliðinu gott

Mist Edvardsdóttir skoraði tvívegis í kvöld.
Mist Edvardsdóttir skoraði tvívegis í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Mist Edvardsdóttir myndi líklega vilja spila alla leiki í Árbænum. Þar skoraði hún tvö mörk fyrir Val gegn Fylki í Pepsí Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld en á sama velli skoraði hún fjögur mörk í leik liðanna í fyrra. 

Valur sigraði 5:1 eftir að hafa lent 1:0 undir eftir aðeins fimm mínútna leik. „Þetta var fyrsta sóknin sem við fengum á okkur og við vorum svolítið illa staðsettar. Við vissum upp á okkur skömmina en vissum líka að það væru 85 mínútur eftir af leiknum. Við vissum að með því að halda í okkar leik þá myndi þetta koma eins og það gerði. Ég er super ánægð með frammistöðuna á heildina litið. Við svöruðum þessu marki vel og þetta var flottur leikur hjá okkur,“ sagði Mist þegar mbl.is spjallaði við hana í Árbænum í kvöld. 

Í vikunni gerðu Þór/KA og Breiðablik jafntefli á Akureyri og Valur hefur nú fjögurra stiga forskot á Breiðablik. Gefur þessi staða Valsliðinu smá andrými? 

„Ég veit ekki með andrými vegna þess að maður má ekki klikka. Ef við töpum leik þá gæti forskotið farið niður í eitt stig og við eigum eftir innbyrðisleik við Blika. Við þurfum að vera á tánum í öllum leikjum og mæta í alla leiki með rétt hugarfar eins og við gerðum í dag. Það má ekkert hrasa eða misstíga sig,“ sagði Mist en er þeirrar skoðunar að Valsliðið hafi leikið æ betur eftir því sem liðið hefur á sumarið. 

„Klárlega. Í upphafi móts leið okkur eins og við værum að finna taktinn. Eftir mjög gott undirbúningstímabil kom smá pása vegna Covid. Persónulega fannst mér við hiksta aðeins þá og missa þennan rosa fína takt sem við vorum í. En svo hefur þetta komið með hverjum leik. Við náum að tengjast betur og betur í síðustu leikjum. Við spiluðum rosalega þétt í júlí og ég held að það hafi gert okkur gott. Mér finnst spilið hjá okkur vera orðið mjög fínt og ég er mjög sátt við þessa þróun á liðinu,“ sagði Mist Edvardsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is