Sannfærandi sigur Vals í Árbænum

Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis með boltann í Árbænum í …
Þórdís Elva Ágústsdóttir fyrirliði Fylkis með boltann í Árbænum í dag og Dóra María Lárusdóttir fylgist með. mbl.is/Unnur Karen

Topplið Vals vann fjögurra marka sigur á botnliði Fylkis 5:1 í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í dag og náði með því fjögurra stiga forystu í deildinni.

Valur var yfir 3:1 að loknum fjörugum fyrri hálfleik og bætti við tveimur mörkum þegar leið á leikinn en síðari hálfleikurinn var mun daufari en sá fyrri. 

Fylkis tók forystuna strax á 5. mínútu þegar Bryn­dís Arna Ní­els­dótt­ir skoraði af stuttu færi. Fylkisliðið byrjaði vel en tvær hornspyrnur Vals á 13. og 15. mínútu snéru leiknum en í báðum tilfellum skallaði Mist Edvardsdóttir í netið eftir fyrirgjafir Dóru Maríu Lárusdóttur. Á 17. mínútu bætti Cyera Hintzen þriðja markinu við eftir undirbúning Mary Alice Vignola og fyrstu fjögur mörkin komu því á fyrstu sautján mínútunum. 

Eins og leikurinn var fjörugur framan af þá var rólegt yfir í síðari hálfleik. Þriðja mark Vals hafði sjálfsagt mikið að segja í þeim efnum. Ásdís Karen Halldórsdóttir innsiglaði sigur Vals þegar hún skoraði á 77. mínútu eftir að Lára Kristín Pedersen hafði átt skottilraun og Elín Metta Jensen bætti fimmta markinu við á 90. mínútu þegar hún slapp inn fyrir vörnina. 

Leikurinn er sá síðasti í 12. umferð og átti að fara fram á miðvikudaginn en honum var þá frestað eftir að kórónuveirusmit kom upp í leikmannahópi Fylkis.

Valur er með 32 stig í efsta sæti en Fylkir er með 9 stig í neðsta sæti. 

Toppliðið nýtir styrkleikana

Fylkisliðið byrjaði leikinn af nokkrum krafti og í rúmlega tíu mínútur voru leikmenn liðsins nokkuð áræðnir. Valsliðið snéri taflinu hins vegar við á aðeins örfáum mínútum. Þrjú fyrstu mörk Vals komu á 13., 15. og 17. mínútu og þá var vindurinn nánast úr Fylkisliðinu. Lið sem eru í fallsæti geta verið fljót að brotna og þegar staðan var orðin 1:3 höfðu leikmenn Fylkis sjálfsagt litla trú á að hægt yrði að ná í stig úr því sem komið var.

Fyrir vikið varð leikurinn daufur í síðari hálfleik og nánast vinalegur því gula spjaldið fór aldrei á loft í leiknum. Aðalbjörn dómari átti náðugan dag og lenti aldrei í vandræðum. 

Valsliðið vann vel úr stöðunni. Spilamennska liðsins var góð og liðið er ekki á toppnum að ástæðulausu. Fyrstu tvö mörkin komu eftir hornspyrnur sem er væntanlega fúlt fyrir Fylki enda slæmt að fá á sig tvö slík mörk í leik. En spyrnurnar hjá Dóru Maríu eru jafnan í háum gæðaflokki og tæplega finnast margir leikmenn í deildinni sem ráða við Mist í loftinu. Þetta kallast að nýta þá styrkleika sem búa í leikmönnum. 

Staða Vals er góð sem stendur því liðið hefur nú fjögurra stiga forskot á Íslandsmeistarana í Breiðabliki sem gerðu jafntefli á Akureyri í vikunni. Valur á því ágæta möguleika að endurheimta titilinn miðað við stöðuna eins og hún er þegar ágúst er að ganga í garð. Síðari leikur Breiðabliks og Vals er hins vegar og Blikum hefur gengið vel gegn Val í síðustu viðureignum liðanna. 

Fylkir 1:5 Valur opna loka
90. mín. Mar­grét Björg Ástvalds­dótt­ir (Fylkir) á skot framhjá Lét bara vaða af 30 metra færi en lítil hætta á ferðum.
mbl.is