Spila á frídegi verslunarmanna vegna Evrópuleiks

Finnur Orri Margeirsson, Nikolaj Hansen og Viktor Örn Margeirsson í …
Finnur Orri Margeirsson, Nikolaj Hansen og Viktor Örn Margeirsson í fyrri leik liðanna í vor sem Víkingur vann 3:0. Eggert Jóhannesson

Viðureign Breiðabliks og Víkings úr Reykjavík í fimmtándu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu hefur verið flýtt um sólarhring vegna Evrópuleiks hjá Breiðabliki og verður hann nú leikinn á mánudaginn kemur, á frídegi verslunarmanna.

Leikið verður um kvöldið kl. 19.15 á Kópavogsvelli en þremur sólarhringum síðar tekur Breiðablik á móti Aberdeen frá Skotlandi á sama stað í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Þetta er lykilleikur í toppbaráttunni en Valur er með 30 stig, Víkingur 29, KR 25, Breiðablik 23 og KA 23 í fimm efstu sætunum. Breiðablik og KA eiga leik til góða á hin liðin þannig að Blikar geta með sigri komist í seilingarfjarlægð við efstu liðin.

mbl.is