Breiðablik þarf að spila á Laugardalsvelli

Breiðablik má ekki spila á Kópavogsvelli þegar Aberdeen kemur í …
Breiðablik má ekki spila á Kópavogsvelli þegar Aberdeen kemur í heimsókn á fimmtudaginn. mbl.is/Unnur Karen

Karlaliði Breiðabliks í knattspyrnu hefur verið gert að spila heimaleik sinn gegn Aberdeen frá Skotlandi í þriðju umferð Sambandsdeildar Evrópu næstkomandi fimmtudag.

Þetta staðfesti Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Blikar höfðu vonast til þess að fá að spila leikinn á heimavelli sínum, Kópavogsvelli, líkt og liðið hefur fengið að gera í fyrstu og annarri umferð keppninnar.

Þegar á þetta stig er komið í Sambandsdeildinni eru hins vegar strangari kröfur gerðar til leikvalla. Leikvellir þurfa þá að vera í þriðja flokki en Kópavogsvöllur er í öðrum flokki.

„Kópavogsvöllur er „category“ 2-völlur út af flóðljósum og einhverri aðstöðu. Völlurinn þarf að vera „category“ 3-völlur þegar komið er á þetta stig keppninnar,“ útskýrði Óskar Hrafn í samtali sínu við Fótbolta.net.

Hann bætti því við að hann væri ósáttur við Kópavogsbæ í málinu. „Það er sorglegt að Kópavogsbær skuli ekki geta staðið þannig að málum að hægt sé að spila svona leiki í bæjarfélaginu heldur þurfi að fara í annað sveitarfélag með leikinn.“

Viðtalið við Óskar Hrafn í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert