Fylkir og Leiknir fengu sitt hvort stigið

Loftur Páll Eiríksson og Fylkismaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson í baráttunni …
Loftur Páll Eiríksson og Fylkismaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fylkir og Leiknir úr Reykjavík gerðu markalaust jafntefli í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Würth-vellinum í Árbæ í kvöld. Fylkir er í níunda sæti deildarinnar með 14 stig og Leiknir í sjöunda sæti með 17 stig.

Leiknismenn komust næst því að skora á  20. mínútu þegar fyrirliðinn Sævar Atli  fékk boltann hægra megin í teignum frá Daníel en skaut í stöng. 

Guðmundur Steinn var tvívegis nærri því að skora fyrir Fylki en Guy Smit varði í báðum tilfellum. 

Arnór gaf til hægri á Orra Hrafn sem keyrði fram kantinn. Gaf hættulega fyrirgjöf inn á markteig og þar renndi Guðmundur Steinn sér í boltann og reyndi að koma honum í markið vinstra megin. Smit kastaði sér niður og varði á einhvern ótrúlegan hátt. 

Þetta gerðist undir lok fyrri hálfleiks og undir lok leiksins náði Guðmundur Steinn skalla sem stefndi neðst í vinstra hornið en Smit sýndi aftur gott viðbragð og varði. 

Vaktinni hjá Smit var ekki lokið því hann varði skömmu síðar frá Helga Vali í dauðafæri beint á móti markinu. Arnór Borg fékk frákastið en skaut í hliðarnetið utanvert hægra megin í teignum. 

Fylkismaðurinn Daði Ólafsson fékk brottvísun fyrir tæklingu í uppbótartímanum þegar Leiknismenn voru að ná skyndisókn. Hjalti og Daði eltu boltann. Hjalti var aðeins á undan og náði að pikka boltanum fram kantinn þegar Daði rennir sér í hann á hlið. Líklega gefa reglurnar Agli dómara ekki færi á öðru en að reka Daða út af við aðstæður sem þessar. 

Smit reyndist erfið hindrun

Fyrri hálfleikurinn var ekki sérlega vel spilaður en þá gekk liðunum ekki mjög vel að byggja upp sóknir. Bestu marktækifærin tvö sem hér hefur verið minnst á lífguðu upp á leikinn í fyrri hálfleik. 

Í síðari hálfleik gekk spilið betur hjá Fylki og þegar uppi var staðið átti liðið ansi margar skottilraunir. Fylkismenn fóru hins vegar illa með marktækifærin auk þess sem Guy Smit reyndist erfið hindrun að komast yfir. Árbæingar voru miklu ágengari í leiknum og eru sjálfsagt fúlir yfir uppskerunni. Fyrir leikmenn framarlega á vellinum eins og Guðmund Stein, Arnór Borg og Dag Dan þá var þessi leikur dæmigerður „næstum því“ leikur. Þeir voru oft ágengir en náðu ekki að klára dæmið og skora. 

Leiknismenn voru sjálfsagt ánægðir með að halda markinu hreinu. Ekki síst í síðari hálfleik því Sigurður Höskuldsson þjálfari þurfti að gera tvær breytingar eftir 45 mínútur. Þá þurfti hann að taka tvo varnarmenn út af vegna meiðsla, Bjarka og Dag Austmann Hilmarsson, en liðið fékk þó ekki á sig mark. 

Eftir að hafa fengið sitt hvort stigið eru bæði lið nokkrum stigum fyrir ofan HK og ÍA sem eru í fallsætunum. Fylkir og Leiknir R. teljast ekki í mikilli fallhættu eins og er en deildin er hins vegar ill fyrirsjáanleg. Ef HK-ingar og Skagamenn hressast þá gæti baráttan í neðri hlutanum orðið mjög áhugaverð. 

Fylkir 0:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Helgi Valur Daníelsson (Fylkir) á skot sem er varið Frábær varsla. Helgi í dauðafæri í teignum og reyndi að setja boltann í hægra hornið með innanfótarskoti en Smit varði frábærlega. En boltinn er laus.....
mbl.is