Hallgrímur Mar í góðu formi eftir versló: „Hvað sýnist þér?“

Hallgrímur Mar fagnar sigurmarkinu.
Hallgrímur Mar fagnar sigurmarkinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var virkilega erfiður leikur en sterkur sigur sem við áttum held ég alveg skilinn,“ sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson sem var maður leiksins þegar KA vann 2:1-sigur á Keflavík í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Hallgrímur gerði bæði mörk KA og var sífellt ógnandi allan leikinn.

Þessi sigur var virkilega mikilvægur fyrir KA-menn í Evrópubaráttunni sem þeir eru í. Með sigrinum lyftu þeir sér upp að hlið Breiðabliks og sitja nú í fjórða sæti deildarinnar. „Framhaldið er erfitt, eins og allir leikir. Við eigum Víking í næstu umferð sem eru á sama stað og við þannig að þetta verður bara barátta alveg út í enda.“

Þessi leikur var hinn fjörugasti og einkenndist af mikilli baráttu beggja liða. „Þeir eru með frábært lið, það er mikið tempó á þeim og þeir eru á fullu allan leikinn. Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu. Við sem betur fer náðum að lauma inn marki í lokin.“

Eins og áður sagði gerði Hallgrímur bæði mörk KA í leiknum. Í fyrra markinu fékk hann boltann við vítateigshornið vinstra megin, lék inn á völlinn, færði boltann á hægri fótinn og negldi honum niðri í fjærhornið. Í seinna markinu fékk hann boltann aftur við vinstra vítateigshornið, en setti hann þá á vinstri fótinn og lék í átt að endalínunni. Færið var orðið örlítið þröngt þegar hann lét skotið ríða af en spyrnan var frábær meðfram grasinu og endaði boltinn alveg út við stöngina fjær. Hallgrímur var feginn þegar boltinn endaði í netinu. „Þetta var mikill léttir. Eins og ég sagði var þetta búið að vera erfitt, mikil hlaup og mikið fram og til baka. Svo ég var bara mjög ánægður.“

Aðspurður hvernig menn væru að koma undan verslunarmannahelginni sagði Hallgrímur einfaldlega: „Hvað sýnist þér?“ og brosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert