„Örugglega MMM“

Frá leik liðanna í kvöld.
Frá leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Stígsson var ánægður með spilamennskuna hjá Fylki en fúll yfir uppskerunni þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn Leikni í Árbænum í kvöld í Pepsí Max-deild karla í knattspyrnu. 

„Liðið var mjög gott í dag. Við vorum aggressífir og fengum fullt af færum en það vantaði aðeins að setja endapunktinn á þetta,“ sagði Ólafur, annar af þjálfurum Fylkis, þegar mbl.is spjallaði við hann í lautinni í kvöld. 

Guy Smit markvörður Leiknis reyndist Árbæingum erfiður í kvöld. „Hann átti stórleik og örugglega MMM á það,“ sagði Ólafur og hló en þar vísar hann til einkunnagjafar Morgunblaðsins þar sem leikmenn geta fengið M, MM og MMM fyrir frammistöðu sína.

„Hann varði vel en við fengum einnig færi þar sem við hittum ekki á markið. Við hittum ekki alveg nógu vel úr góðum skotstöðum. Þannig er það stundum í boltanum.“

Ólafur hefði sem sagt viljað fá meira en eitt stig þótt hann sé ánægður með spilamennskuna. „Það má orða það þannig að ég sé ánægður með spilamennskuna en fúll yfir uppskerunni. Þegar menn spila vel og leggja sig fram þá getur maður ekki verið annað en ánægður. Vonandi skila þrjú stig sér í næsta leik.“

Á dögunum var sagt frá því að Fylkir hefði fengið danskan leikmann, Malt­he Rasmus­sen, að nafni. Sá er kominn hingað til að fara í nám en samdi við Fylki út tímabilið. „Hann er að koma hingað í skóla en fékk að æfa með okkur og okkur leist bara mjög vel á hann. Við ákváðum því að semja við hann út tímabilið,“ sagði Ólafur Stígsson. 

Ólafur Ingi Stígsson
Ólafur Ingi Stígsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is