Sýning Hallgríms tryggði KA sigur

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar fyrsta marki leiksins.
Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Keflavík mættust í kvöld í Pepsi Max deild karla í fótbolta á Greifavellinum. Fyrir leik voru heimamenn í fimmta sæti deildarinnar en gestirnir í því áttunda. Leikurinn var hinn allra fjörugasti, bæði lið fengu fullt af færum en lokatölur 2:1 heimasigur.

Leikurinn fór fjöruglega af stað en bæði lið hefðu hæglega getað skorað fyrsta markið. Það kom þó ekki fyrr enn á 24. mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk boltann frá Elfari Árna Aðalsteinssyni við vítateigshornið vinstra megin, lék inná teiginn, setti boltann á hægri og negldi honum niðri í fjærhornið. Frábærlega gert.

Eftir markið voru heimamenn með öll völd á vellinum og sóttu án afláts. Annað markið hreinlega lá í loftinu. Það var því algjörlega þvert gegn gangi leiksins þegar Joey Gibbs fær boltann inni á teignum, reynir skot að marki sem Þorri Mar Þórisson fær í hendina og vítaspyrna réttilega dæmd. Helgi Mikael Jónasson dómari leiksins viss í sinni sök. Gibbs fór sjálfur á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi og staðan í hálfleik því 1:1.

Seinni hálfleikur var ekki ósvipaður þeim fyrri en hvorugt liðið virtist ætla að ná inn sigurmarkinu. Á 80. mínútu fékk þó varamaðurinn Bjarni Aðalsteinsson boltann við vítabogann, lagði hann til vinstri á Hallgrím Mar sem var við vítateigshornið. Hann lék boltanum í átt að endamörkunum, átti svo hnitmiðað skot í fjærhornið alveg út við stöng. Frábær afgreiðsla hjá Hallgrími og Sindri Kristinn markvörður gestanna kom engum vörnum við. 2:1 og þar við sat. Akureyringar hirtu því stigin þrjú.

Hallgrímur Mar Steingrímsson lék á als oddi í kvöld og var án nokkurs vafa besti maður vallarins. Hann gerði auðvitað tvö frábær mörk en var auk þess sívinnandi og skapaði heilan helling fyrir liðsfélaga sína. Bjarni Aðalsteinsson átti mjög flotta innkomu og lagði meðal annars upp sigurmark KA í leiknum. Keflvíkingar voru einnig flottir í kvöld og ber þar líklega helst að nefna þá Frans Elvarsson og Joey Gibbs sem spiluðu mjög vel.

Hallgrímur Jónasson staðfesti það svo í viðtali eftir leik að Jonathan Hendrickx hefur leikið sinn síðasta leik fyrir KA og mun fara heim til Belgíu strax á morgun. KA hafa þó fengið nýjan bakvörð í hans stað en Mark Gundelach skrifaði undir samning um helgina. Hann er danskur og spilaði meðal annars með Hallgrími þegar hann var atvinnumaður í Danmörku. Hann var ekki í leikmannahópnum í dag en það verður spennandi að sjá hann í næstu leikjum.

KA 2:1 Keflavík opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbót
mbl.is