Bjóst við þeim grimmari

frá leiknum í Garðabæ. Það glittir í Heiðar lengst til …
frá leiknum í Garðabæ. Það glittir í Heiðar lengst til vinstri. mbl.is/Árni Sæberg

Heiðar Ægisson, leikmaður Stjörnunnar, var skiljanlega kátur þegar mbl.is ræddi við hann eftir 4:0-sigur á ÍA í fallbaráttuslag í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Stjarnan er nú í áttunda sæti með 16 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Við vorum grimmir og við ætluðum að vinna þennan leik og halda hreinu, þar sem við höfum ekki náð því oft í sumar. Það var geggjað að skora nóg af mörkum og ná að halda hreinu,“ sagði Heiðar.

Stjarnan komst yfir strax á fimmtu mínútu og var sigurinn afar sannfærandi. Heiðar viðurkennir að hann hafi átt von á grimmari Skagamönnum í kvöld.

„Eftir fyrsta markið fannst mér við vera með tök á þeim og við fegnum nóg af færum. Við máttum jafnvel skora fleiri mörk. Ég bjóst við þeim grimmari en við mættum þeim í baráttunni. Við erum með betra lið og ef við mætum þeim í baráttunni, þá eigum við að vinna leikinn.“

Sigurinn var sá fyrsti eftir fimm leiki í röð í öllum keppnum án sigurs, en Heiðar var stuttorður þegar talið barst að slæmu gengi Stjörnunnar fyrir leikinn í kvöld. „Hlutirnir hafa ekki beint verið að falla með okkur. Við horfum upp á við og höldum áfram.“

Hinn 17 ára gamli Eggert Aron Guðmundsson skoraði eitt og lagði upp annað í kvöld og var maður leiksins. Magnus Anbo skoraði svo tvö mörk.  

„Eggert var frábær í leiknum og Daninn að standa sig vel. Óli Valur kemur svo inn með krafti. Það er geggjað að fá svona góða unga stráka inn í liðið,“ sagði Heiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert