„Datt þeirra megin í kvöld“

Kristján Flóki Finnbogason í leiknum í kvöld.
Kristján Flóki Finnbogason í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var svona leikur sem gat dottið báðum megin og datt þeirra megin í kvöld. Við vorum að mér fannst betri í fyrri hálfleik, svo komust þeir aðeins meira inn í þetta í seinni hálfleik,“ sagði Kristján Flóki Finnbogason, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir 0:1 tap liðsins gegn erkifjendunum í Val í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.

Eins og Kristján Flóki bendir á voru KR-ingar sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náðu þó ekki að skora, ekki frekar en í síðari hálfleik. Í þeim síðari var meira jafnræði með liðunum en Valsmenn voru þó ögn sterkari aðilinn og uppskáru mark þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks.

Hvað hefði mátt fara betur hjá KR í kvöld? „Mér fannst ekki vera það mikill munur á liðunum í seinni hálfleik en þeir voru með yfirhöndina. Við höfum verið að ná forystunni í fyrri hálfleik og slaka svo aðeins á í seinni hálfleik en höfum verið að bæta það í síðustu leikjum.

Okkur fannst báðir hálfleikarnir fínir í kvöld. Það sem hefði þurft að fara betur var að klára færin. Ef við hefðum skorað á undan og komist yfir hefðum við verið í betri stöðu,“ sagði hann.

Þrátt fyrir að vera átta stigum á eftir Val eftir ósigurinn í kvöld eru KR-ingar hvergi nærri af baki dottnir enda enn sjö leikir eftir af deildinni, auk þess sem stutt er í stórslag gegn Víkingi úr Reykjavík í Mjólkurbikarnum í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Strax á sunnudaginn er FH og svo er bikarinn í næstu viku þannig að ég hugsa að við byrjum bara á því að klára FH-ingana og svo höldum við áfram á okkar leið,“ sagði Kristján Flóki að endingu í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert