„Drullumikilvægt fyrir okkur að vinna þennan leik“

Tryggvi Hrafn Haraldsson með boltann í leiknum í kvöld.
Tryggvi Hrafn Haraldsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri Vals gegn erkifjendunum í KR í einvígi Reykjavíkur stórveldanna í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.

Mark Tryggva Hrafns var hans fyrsta fyrir Val en hann er nýfarinn af stað aftur eftir að hafa jafnað sig á meiðslum. Hvernig var tilfinningin að skora fyrsta mark sitt fyrir liðið í þetta stórum leik?

„Það er bara geggjað. Þetta er sennilega stærsta einvígið á landinu, Valur – KR. Það er auðvitað mikilvægast af öllu að ná þremur punktum en að skora sigurmarkið sjálfur er náttúrlega bara geggjað,“ sagði hann kátur í samtali við mbl.is eftir leik.

Tryggvi Hrafn fótbrotnaði í æfingaleik gegn Víkingi úr Reykjavík skömmu áður en Íslandsmótið hófst. Hann hefur nú spilað þrjá leiki með Val og er allur að koma til.

„Ég brotnaði á hundleiðinlegum tíma, þegar það var vika eða tvær í mót. Þegar maður er búinn að vera að gíra sig upp í þetta í nokkra mánuði þá er þetta ógeðslega leiðinlegt. Það vantar aðeins upp á þolið sjálft en skrokkurinn er í lagi og það er það sem er mikilvægast,“ sagði Tryggvi Hrafn um líkamlegt ástand sitt.

Valur er áfram á toppi deildarinnar og er núna átta stigum á undan KR, sem er í fimmta sæti. Tryggvi Hrafn sagði sigurinn í kvöld gefa góð fyrirheit fyrir framhaldið, en Valur á núna eftir sjö leiki í deildinni og eru með fjögurra stiga forskot á Víking sem er í öðru sætinu.

„Algjörlega. Eins og ég segi er þetta stærsti leikurinn í deildinni og ekki bara hvað félögin varðar heldur erum við í toppbaráttu á móti þeim. Fyrir síðustu umferðirnar er það drullumikilvægt fyrir okkur að vinna þennan leik, fyrir okkur sjálfa og framhaldið. Þetta var virkilega sætt,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is