Frábær leikur og frábær frammistaða

Brynjar Björn Gunnarsson
Brynjar Björn Gunnarsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var ansi brosmildur í leikslok á Kaplakrikavelli í kvöld en HK vann sannfærandi 4:2 sigur á liði FH í Pepsi Max-deild karla í kvöld.

„Þetta var frábær leikur, frábær frammistaða. Þeir voru virkilega öflugir fram á við og hættulegir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik þegar við þurfum að loka leiknum gerðum við það nokkuð vel,“ sagði Brynjar við mbl.is.   

En þið fáið högg í magann eftir aðeins 55 sekúndur þegar FH kemst yfir í leiknum. En það virtist ekkert hafa áhrif á þina menn?

„Nei, það virtist ekki gera það og fyrir lið í okkar stöðu þá hefði það svo sannarlega getað slegið okkur útaf laginu en mér fannst eftir það og í kjölfarið eftir markið bara spurning hvernær við myndum jafna leikinn.“

Þið jafnið mjög fljótt og það lá bara í loftinu annað mark strax eftir þetta jöfnunarmark.

„Já, það virtist gera það. Við vorum allavega með það upplegg að koma grimmir inn í leikinn og gerðum það og ég veit ekki hvort að það hafi komið FH-ingunum á óvart en það var svo sem ekki tilgangurinn. Bara fyrir okkur að vera klárir í leikinn. Svo komumst við í 2:1 en fáum aftur smá högg og FH jafnar metin en við héldum áfram og bara geggjuð frammistaða hjá leikmönnum í kvöld.“

Þið eruð mun betri í fyrri hálfleik en samt eruð þið bara einu marki yfir í hálfleik.

„Já, við eigum fleiri færi í fyrri hálfleik og fleiri hættulegar sóknir sem gerði það að verkum að við vorum, ekki værukærir, en aðeins opnari til baka og fáum á okkur tvö mörk í fyrri hálfleik en það þarf að skora mörk til að vinna leiki og við gerðum það. Við bættum við þriðja og fjórða markinu og þegar fjórða markið kom þá var þetta nánast í höfn en við þurftum að hafa fyrir þessu og sjá út leikinn.“

Hversu mikilvægur var þessi sigur fyrir HK?

„Gríðarlega mikilvægur. Eins og staðan er eftir þennan leik erum við áfram með í pakkanum með þessum neðstu fjórum eða fimm liðum og við erum núna í færi við liðin fyrir ofan okkur og nú þurfum við aftur að byggja ofan á þessa frammistöðu. Við eigum erfiðan leik fyrir höndum upp á Skaga næst og það verður bara skemmtilegt að takast á við þetta og komast upp úr þessu sem við höfum verið í.“

Er þetta vikan sem allt breytist hjá HK? Fer allt í rétt átt?

„Ég er enginn spámaður þannig að ég kýs bara að vinna eftir staðreyndum. Við verðum bara að undirbúa okkur vel en við getum snúið þessu okkur í hag á næstu dögum og gefið okkur smá platform til að fara upp töfluna.“

mbl.is