Fyrsta mark Tryggva reyndist sigurmarkið í stórslagnum

Leikmenn bíða þess að hornspyrna verði tekin að marki KR …
Leikmenn bíða þess að hornspyrna verði tekin að marki KR í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Valur vann mikilvægan 1:0 sigur gegn nágrönnum sínum og erkifjendum í KR í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, í stórslag í kvöld. Sigurmarkið skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson eftir að hafa komið inn á sem varamaður og var það hans fyrsta mark fyrir Val.

Í fyrri hálfleik voru KR-ingar sterkari aðilinn og settu Valsmenn í vandræði með góðri pressu hátt á vellinum. Allnokkur færa KR-inga komu enda eftir að liðið vann boltann á vallarhelmingi Valsmanna.

Hannes Þór Halldórsson í marki Vals var þó ávallt vel á verði og bjargaði því sem bjarga þurfti fyrir Valsmenn.

Besta færi KR fékk Atli Sigurjónsson um miðjan hálfleikinn. Hann slap þá í gegn eftir að Sebastian Hedlund misreiknaði boltann hrapallega eftir langa sendingu Kristins Jónssonar. Atla langaði að gefa þvert fyrir markið á Kjartan Henry Finnbogason en Rasmus Christiansen lokaði sendingaleiðinni. Atli skaut þá úr góðu en nokkuð þröngu færi og Hannes Þór varði vel til hliðar áður en Christiansen kom boltanum á samherja.

Heimamenn í Val tóku betur við sér undir lok hálfleiksins og fengu sannkallað dauðafæri Á 37. mínútu. Christiansen gaf þá fyrir, Arnór Sveinn Aðalsteinsson skallaði til hliðar, beint fyrir fætur Patrick Pedersen en skot hans af markteig fór framhjá nærstönginni.

Markalaust var í hálfleik.

Kristinn Jónsson og Patrick Pedersen í bleytunni á Hlíðarenda í …
Kristinn Jónsson og Patrick Pedersen í bleytunni á Hlíðarenda í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Í síðari hálfleiknum var talsvert jafnræði með liðunum, þó Valsmenn hafi á heildina litið verið ögn sterkari aðilinn.

Kristján Flóki Finnbogason fékk dauðafæri eftir rúmlega klukkutíma leik eftir laglega stungusendingu Óskars Arnar Haukssonar en Hannes Þór varði laglega á nærstönginni. Kristján Flóki hefði betur gefið til hliðar á Kjartan Henry Finnbogason sem beið átekta fyrir opnu marki og var ekki sérlega sáttur með að fá ekki boltann.

Nokkrum mínútum síðar átti Birkir Heimisson bylmingsskot fyrir utan teig en boltinn small í stönginni.

Sigurmark leiksins kom hins vegar á 74. mínútu þegar Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn, sem hafði níu mínútum fyrr komið inn á sem varamaður, skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Glæsileg sókn leiddi þá til þess að Guðmundur Andri Tryggvason kom sér í stórhættulega stöðu í vítateignum með frábærri snertingu, hann lagði boltann til hliðar á Kristin Frey Sigurðsson sem var einn gegn Beiti Ólafssyni í marki KR en ákvað að leggja hann út á Tryggva Hrafn sem kláraði stórkostlega af stuttu færi með vinstri fæti, innanfótar spyrna sem fór í samskeytin nær.

Eftir markið gáfu KR-ingar í og leituðu ólmir að jöfnunarmarki. Á 83. mínútu komust þeir mjög nálægt því þegar skot Stefáns Árna Geirssonar fór af varnarmanni, breytti um stefnu og Hannes Þór varði naumlega með hægri fæti. Boltinn barst til hliðar á Kjartan Henry sem skaut af stuttu færi en aftur varði Hannes Þór, nú laglega á nærstönginni.

Valsmenn héldu hins vegar út og sigldu naumum sigri að lokum í höfn.

Markvörslur Hannesar Þórs á mikilvægum augnablikum í leiknum reyndust gera gæfumuninn fyrir Val enda átti landsliðsmarkvörðurinn sannkallaðan stórleik.

Valur er áfram í toppsætinu og náði að vinna báða leikina í deildinni gegn KR þetta tímabilið. KR er núna átta stigum á eftir Val í fimmta sætinu.

Valur er eftir sigurinn með fjögurra stiga forskot á Víking úr Reykjavík, sem er í öðru sæti.

Valur 1:0 KR opna loka
90. mín. Það verða sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is