Stjarnan sannfærandi í fallbaráttuslagnum

Sindri Snær Magnússon úr ÍA og Hilmar Árni Halldórsson, Stjörnunni, …
Sindri Snær Magnússon úr ÍA og Hilmar Árni Halldórsson, Stjörnunni, eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann sannfærandi 4:0-heimasigur á ÍA er liðin mættust í fallbaráttuslag í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Það tók Stjörnumenn aðeins sex mínútur að skora fyrsta markið og það gerði Eggert Aron Guðmundsson. Hann fékk þá boltann utan teigs, tók á rás inn í teiginn og skilaði boltanum í fjærhornið.

Hilmar Árni Halldórsson tvöfaldaði forskot Stjörnunnar á 25. mínútu með góðu skoti í bláhornið eftir sendingu frá Þorsteini Má Ragnarssyni. Þorsteinn lagði einnig upp fyrsta markið á Eggert.

Eggert var áberandi í þriðja marki Stjörnunnar sem Daninn Magnus Anbo skoraði. Eggert lagði boltann skemmtilega á Anbo sem kláraði með glæsilegu skoti upp í þaknetið. Skagamenn buðu upp á lítið í hálfleiknum og var staðan í leikhléi því 3:0.

Skagamenn voru aldrei líklegir til að ógna forskoti Stjörnumanna í seinni hálfleik, en Stjörnumenn bættu við fjórða markinu í blálokin er Anbo skoraði sitt annað mark eftir glæsilegan einleik og þar við sat. 

Stjarnan er nú í 8. sæti með 16 stig en ÍA sem fyrr á botninum með aðeins níu stig. 

Stjarnan 4:0 ÍA opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert