Tek fulla ábyrgð á að vera í neðsta sæti

Gengið hefur verið erfitt hjá Jóhannesi Karli og ÍA.
Gengið hefur verið erfitt hjá Jóhannesi Karli og ÍA. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var súr og svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 0:4-skell á móti Stjörnunni í botnbaráttuslag í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í dag. Staða Skagamanna er orðin afar slæm, en liðið er í botnsætinu með níu stig, sex stigum frá öruggu sæti.

„Við vissum alveg að Emil Atlason yrði frammi og við vissum að það yrði barátta um seinni boltana. Við ætluðum að ráða betur við það en við gerðum í dag. Stjarnan setti mikið af boltum upp völlinn hjá okkur og Emil er góður í því. Ég er fyrst og fremst vonsvikinn með hvernig þeir jörðuðu okkur í seinni boltunum í fyrri hálfleiknum og náðu tökum á þessum leik.

Mér fannst liðið ná í ágætisopnanir öðru hvoru en þegar þessi síðasta sending, þessi gegnumbrots sending, þá fór það yfirleitt á bláa skyrtu og við þurftum að gjöra svo vel að hlaupa til baka. Við vorum heldur ekki nógu grimmir til að pressa hátt þegar við töpuðum boltanum. Það var virkilega svekkjandi að fylgjast með okkar frammistöðu í fyrri hálfleik.,“ sagði Jóhannes um frammistöðu sinna manna.

Magnus Anbo skoraði tvö marka Stjörnunnar og stekkur hér hæst …
Magnus Anbo skoraði tvö marka Stjörnunnar og stekkur hér hæst í návígi á Samsung-vellinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ljóst var að ÍA saknaði Ísaks Snæs Þorvaldssonar á miðjunni í kvöld, en hann hefur verið einn besti leikmaður ÍA í sumar.

„Ísak er rosalega öflugur leikmaður fyrir okkur og hefur sýnt og sannað að hann er alltaf klár í slaginn. Við töldum okkur að við værum í góðum málum með það sem við vorum með á miðjunni í dag og ætluðum okkur að vinna baráttuna þar en því miður vorum við undir í baráttunni. Það var allt annar bragur á okkur í fyrri hálfleik en leikurinn tapast í seinni hálfleik.“

Jóhannes veit manna best að staða Skagamanna er erfið og leikjunum til að bjarga sér fækkar. ÍA mætir næstneðsta liðinu í HK í næstu umferð og þarf á sigri að halda.

„Þetta er gríðarlega erfitt en við getum ekki verið að spá í neinum öðrum en okkur sjálfum. Við ætluðum okkur að gera mikið betur í dag. Staðan er eins og hún er og þetta er engum öðrum en okkur sjálfum að kenna. Ég sem þjálfari þessa liðs tek fulla ábyrgð á því að vera með liðið í neðsta sæti. Það býr meira í þessu liði að mínu mati en við höfum allt of sjaldan náð að sýna það.“

Þetta er náttúrulega bara einn leikur í einu. Þetta er virkilega vond staða en næsti leikur er á móti HK og þá getum við snúið þessu aðeins okkur í hag, en við verðum að gjöra svo vel að vinna þann leik. Staðan er gríðarlega erfið núna og taflan lýgur ekki með það. Það er einhver ástæða fyrir því að við erum á botninum en við erum þeir einu sem getum breytt okkar gengi. Það er enginn að fara að hjálpa okkur að gera það,“ sagði Jóhannes.

mbl.is