Tryllt stemning í klefanum

Birnir Snær Ingason átti stórgóðan leik.
Birnir Snær Ingason átti stórgóðan leik. mbl.is/Arnþór Birkisson

Birnir Snær Ingason, leikmaður HK, fór á kostum í 4:2 sigri HK á liði FH í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Birnir Snær skoraði tvö mörk í leiknum og hann var svo sannarlega sáttur í leikslok.

„Þetta var geggjað. Þetta var alveg frábært. Það er alltaf gott að vinna leiki og hvað þá að skora fjögur mörk. Við lágum svo bara aðeins til baka í seinni hálfleik og vörðumst vel,“ sagði Birnir við mbl.is.

En þið fáið mark á ykkur strax á 1. mínútu leiksins en það virtist ekki slá ykkur út af laginu?

„Já, maður hugsaði þarna bara, ég trúi þessu ekki. Er þetta að fara gerast aftur en ég fæ strax dauðafæri í kjölfarið og svo skora ég markið á 5. mínútu. Svo var bara færi eftir færi hjá okkur og við komum á endanum fjórum mörkum inn. Sem var geðveikt.“

Í leiknum gegn Valsmönnum í síðustu umferð spiluðum þið mjög vel í fyrri hálfleiknum sérstaklega en töpuðum þeim leik. Hver var munurinn í dag?

„Það var fyrst og fremst nýtingin á færunum. Við fengum haug af færum og lágum á Valsmönnum í fyrri hálfleik en þeir eru auðvitað með frábæra leikmenn og voru bara með einhver sirkusmörk og nýttu öll færin sín á meðan við gerðum það ekki. Það var munurinn á þessum leikjum.“

Hvað gerir þessi sigur fyrir leikmannahópinn? Hvernig var að koma inn í klefa eftir þennan flotta sigur?

„Það var tryllt stemning í klefanum strax eftir leik. Þetta var mjög nauðsynlegt og andinn allt annar fyrir leik þó að andinn hafi alls ekki verið vondum fyrir leik en svona sigur gefur okkur mjög mikið og sjálftraust auðvitað.“

Er þessi sigur hér í kvöld er þetta vendipunkturinn á tímabilinu ykkar? Það er auðvitað ÍA í næsta leik.

„Ég veit það ekki. Við erum búnir að spila vel en við höfum ekki verið að ná í nógu mikið af stigum. Við erum inn í öllum leikjum og getum unnið hvaða leik sem er og tapað sömuleiðis. Við tökum bara einn leik í einu. Þetta er auðvitað rosalegur pakki þarna í neðri hlutanum. Bara það að fá eitt eða tvö stig þá ertu komin um miðja deild úr fallbaráttunni. Það er mjög sterkt að tengja saman sigurleiki og það er eitthvað sem við ætlum okkur,“ sagði Birnir.

mbl.is