Útisigur í sex marka leik í Kaplakrika

Birnir Snær Ingason og Jónatan Ingi Jónsson skoruðu í kvöld.
Birnir Snær Ingason og Jónatan Ingi Jónsson skoruðu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það voru leikmenn HK sem höfðu betur gegn FH 4:2 í leik liðanna í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld. Þrátt fyrir sigurinn er HK ennþá í fallsæti en liðið er í 11. sæti deildarinnar með 13 stig. FH er áfram í 6. sæti deildarinnar með 18 stig.

 Það tók leikmenn FH aðeins 55 sekúndur að skora fyrsta mark leiksins en þar var á ferðinni Jónatan Ingi Jónsson en hann fékk góða sendingu inn fyrir vörn HK frá Baldri Loga Guðlaugssyni og setti boltann í netið. En HK-ingar létu þetta ekki taka sig út af laginu og jöfnuðu metin aðeins fjórum mínútum síðar en þar var á ferðinni Birnir Snær Ingason en hann fékk góða sendingu frá Stefani Ljubicic og kláraði örugglega.

Nokkrum andartökum héldu stuðningsmenn HK að þeirra menn væru komnir yfir en mark Stefans Ljubcic var dæmt af vegna rangstöðu. Á þessum tímapunkti voru leikmenn HK miklu ákveðnari og grimmari. Virust hreinlega vilja þetta meira en leikmenn FH. Það gerðist svo á 17. mínútu að þessi pressa og ákveðni HK-manna skilaði markið en að þessu sinni var það Arnþór Ari Atlason sem skallaði boltann í netið eftir góða sendingu frá Ívari Erni Jónssyni.

Eftir þetta annað mark HK bökkuðu þeir aðeins og leikmenn FH komust aðeins betur inn í leikinn. Þeir voru aftur á móti ekki að skapa mikið en engu að síður náðu þeir að jafna metin á 30. mínútu leiksins en þar var á ferðinni Baldur Logi Guðlaugsson en hann fékk boltann frá Steven Lennon í teig HK og skaut í varnarmann HK og inn.

Steven Lennon og Ásgeir Börkur Ásgeirsson eigast við.
Steven Lennon og Ásgeir Börkur Ásgeirsson eigast við. mbl.is/Kristinn Magnússon

 Það var ansi hátt spennustigið á þessum kafla í leiknum og mikil barátta. Í blálokin á fyrri hálfleik náðu svo HK-menn að komast yfir en aftur var það Birnir Snær sem var réttur maður á réttum stað og setti boltann í netið eftir sendingu frá Arnþóri Ara. Leikmenn FH tóku miðju eftir markið og strax flautaði Einar Ingi til hálfleik.

Í seinni hálfleik hélt stuðið áfram í Hafnarfirði en það voru gestirnir úr Kópavogi sem komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og settu fjórða markið á 54. mínútu en þá skoraði Atli Arnarson með góðum skalla en sendinguna á hann átti Birkir Valur Jónsson. Virkilega vel klárað hjá Atla.

Eftir þetta bökkuðu leikmenn HK og leyfðu leikmönnum FH að halda boltanum en heimamenn náðu ekki að skapa sér nein alvöru færi. Leikmenn HK voru miklu ákveðnari í þessum leik og áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Ef leikmenn HK halda áfram að spila svona ættu þeir mjög líklega að komast úr fallsæti mjög fljótlega. Leikmenn FH áttu ekki gott kvöld í Kaplakrika í kvöld en það vantaði alla sköpunargleði og baráttu í heimamenn í Kaplakrika í kvöld.

Bæði þessi lið eiga leik í Pepsi Max-deild karla á sunnudaginn en FH heimsækir KR á Meistaravelli og HK mætir ÍA á Norðurálsvellinum.

FH 2:4 HK opna loka
90. mín. Steven Lennon fellur í teignum og vill vítaspyrnu en það er ekkert dæmt. Það er hiti í þessu.
mbl.is