Við vorum bara lélegir

Davíð Þór Viðarsson
Davíð Þór Viðarsson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH, var ekki sáttur eftir leik FH og HK í Pepsi Max-deild karla í kvöld í Kaplakrika en HK-menn fóru með sigur af hólmi í miklum markaleik 4:2.

„Þetta eru fyrst og fremst gríðarlega vonbrigði. Við vorum bara lélegir í kvöld og HK átti þennan sigur svo sannarlega skilið.“

En þið byrjið vel - komnir yfir eftir 55 sekúndur en menn virðast samt ekki vera klárir í þetta verkefni?

„Ég veit ekki hvort það greip um sig einhver værukærð eftir að við skorum þetta mark eða kannski hvort við höfum ekki verið tilbúnir þegar leikurinn byrjaði. Við skorum auðvitað strax eftir mistök hjá þeim, gerum það ágætlega en mér fannst við bara í fyrri hálfleik ekki kveikt á okkur. Alltof langt á milli manna og milli lína og HK er auðvitað með flott fótboltalið og eru með mjög marga góða leikmenn og þeir gengu bara á lagið þegar þeir fengu allt þetta svæði.

Við vorum ragir með boltann og þorðum ekki að spila boltanum nógu mikið fram á við. Það leit út á köflum í dag að menn væru ekki alveg í toppstandi.“

Það er oft talað um það að vilja þetta meira - á það ekki vel við í kvöld - Leikmenn HK vildu þetta bara meira?

„Jú, þeir gengu á lagið þegar þeir sáu að við vorum ekki í takt til að byrja með og gerðu það mjög vel en svo er það líka að við erum búnir að jafna í 2:2 og fáum svo á okkur mark þegar tíu sekúndur eru eftir af fyrri hálfleik þar sem við eigum innkast á vallarhelmingi þeirra tíu sekúndum áður. Það var bara svo mikið í fyrri hálfleik sem maður var að klóra sér í hausnum yfir.“

En í hálfleik þá eruð þið aðeins 2:3 undir þrátt fyrir að hafa átt slakan fyrri hálfleik og eruð alveg inn í þessu. En það er fljótt að breytast í byrjun seinni hálfleik:

„Við ætluðum okkur auðvitað að koma til baka enda hræðilegt að fá á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik og við ætluðum að koma út í seinni hálfleik og snúa þessu við. Það er jafnræði með þessu fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik og svo fáum við þetta mark í andlitið. Við gleymum Atla á fjarstönginni og þá var þetta eiginlega bara Game over því mér fannst við ekki líklegir til að komast til baka þá.“

Það er KR í næsta leik. Hverju þarf að breyta fyrir þann leik?

„Ég er ekki búinn að hugsa það. Við þurfum bara að koma saman á morgun og gera upp þennan leik. Svona er þetta bara stundum í fótbolta. Stundum nærðu þér ekki strik og við þurfum bara að gjöra svo vel að snúa bökum saman. Við erum að fara í alvöru verkefni í Vesturbænum á sunnudaginn og ég hef enga trú á öðru en að menn mæti með kassann út þar og vilji sýna betri frammistöðu en hér í kvöld.“

mbl.is