Reyni að hjálpa liðinu að skora í hverjum leik

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lék mjög vel með Breiðabliki í júlí.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lék mjög vel með Breiðabliki í júlí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lék frábærlega með Breiðabliki í júlí þegar hún skoraði fjögur mörk í fimm leikjum liðsins í deildinni í mánuðinum og lagði í leiðinni upp annað þvílíkt af mörkum. Blikar unnu fjóra sigra í röð; gegn Þrótti úr Reykjavík, Fylki, ÍBV og Selfossi. Í fimmta leiknum gerðu Blikar jafntefli á útivelli gegn Þór/KA.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Blika eru fjórum stigum á eftir toppliði Vals í öðru sætinu, þegar fimm umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. „Við megum ekki misstíga okkur aftur. Í rauninni misstum við þetta alveg úr okkar höndum gegn Þór/KA,“ sagði Áslaug Munda í samtali við Morgunblaðið, en með sigri í þeim leik hefðu Blikar enn aðeins þurft að treysta á sig sjálfa þar sem liðið á eftir að mæta Val innbyrðis.

„Þetta er ekki lengur í okkar höndum og við þurfum að treysta á önnur lið, að þau taki stig af Val. En það er náttúrlega ekki nóg ef við erum síðan sjálfar að fara að klúðra einhverjum leikjum. Við þurfum bara að vinna restina af leikjunum og sjá hvað gerist,“ bætti hún við.

Áslaug Munda telur Breiðablik hafa leikið vel á tímabilinu en að varnarleikur liðsins hafi svikið það of oft. „Í heildina hefur mér litist vel á okkur. Við erum að fá mun fleiri mörk á okkur á þessu tímabili samanborið við síðustu tímabil. Það hefur dálítið klikkað hjá okkur, að koma í veg fyrir þessi mörk.

Við höfum ekki náð því nógu vel, mörg þessara marka hefðum við hreinlega átt að koma í veg fyrir. Varnarleikur liðsins hefur heilt yfir ekki verið nógu góður en við höfum ekki átt í erfiðleikum með að komast í færi. Sóknarleikurinn hefur heilt yfir verið flottur,“ sagði hún.

Drjúg í sóknarleiknum

Aðspurð hvað henni þætti um sína eigin frammistöðu á tímabilinu, þar sem hún hefur skorað sex mörk í 13 deildarleikjum, sagði Áslaug Munda:

„Ég er nokkuð ánægð. Ég hef fengið stórt hlutverk sem ég er ánægð með, hef fengið traustið. Í rauninni er ég bara ánægð að fá að geta verið með eftir síðasta tímabil. Þá var ég mjög mikið frá vegna meiðsla.“ Hún lék aðeins sjö deildarleiki á síðasta tímabili en hefur spilað alla 13 í ár.

Áslaug Munda hefur mestmegnis leikið á hægri vængnum í sumar.
Áslaug Munda hefur mestmegnis leikið á hægri vængnum í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Á þessu tímabili hefur Áslaug Munda komið að miklum fjölda þeirra 46 marka sem Breiðablik hefur skorað í leikjunum 13. Hún er með nærri því mark skorað í öðrum hverjum leik og hefur lagt upp fjöldann allan af mörkum til viðbótar. Af hverju stafar sú breyting samanborið við fyrri tímabil?

„Ég er að spila framar á vellinum heldur en ég hafði verið að gera. Markmið mitt í hverjum leik er að hjálpa liðinu að skora, hvort sem það er með því að leggja upp, skora sjálf eða gera allt sem ég get til að ná inn marki,“ sagði Áslaug Munda, sem lék aðallega sem vinstri bakvörður með Breiðabliki undanfarin tímabil en hefur spilað á öðrum hvorum vængnum á þessu tímabili.

Viðtalið við Áslaugu Mundu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert