Ætluðum að spila miklu betur

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA.
Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, var ekki nægilega sáttur með spilamennsku liðsins í 1:1 jafnteflinu gegn Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

„Tilfinningin eftir þennan leik er ágæt en samt ekki. Jú jú, við sóttum punkt í lokin en leikurinn fór alls ekki eins og við ætluðum okkur. Við ætluðum að ná í þrjú stig hér í dag og ætluðum að spila miklu betur en við gerðum en úr því sem komið var var stig kannski ásættanlegt.“

Í fyrri hálfleik voruð þið ekki að ná að tengja saman. Hvað var að klikka?

„Við vorum að klikka á alltof mörgum sendingum, auðveldum sendingum og reyna kannski aðeins erfiðari hluti en við eigum að gera. Við vorum bara off í fyrri hálfleik í sendingum og móttöku og grunnatriðum hvað það varðar.“

Svo breytir þú um leikkerfi í seinni hálfleik og færir Örnu Sif fram á völlinn og það verður þetta mun betra hjá ykkur?

„Já, þetta er eitthvað sem við höfum verið að gera og þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Þá fóru stelpurnar að tengja aðeins betur. Við vorum vissulega í löngum boltum en við viðrumst bara vinna vel í því og það skóp þetta mark.“

Hefur eitthvað hugsað um það að færa Örnu Sif úr vörninni og framar á völlinn?

„Já, ég get alveg viðurkennt það að það hefur alveg oft skotið upp í kollinum að spila henni framar á vellinum en hún er langbest í því sem hún gerir í vörninni og að sama skapi erum við með aðrar stelpur í liðinu sem eru á miðjunni og frammi sem hafa verið að standa sig mjög vel.“

Nú eru síðustu þrír leikir hjá ykkur gegn liðunum í þremur efstu sætunum. Fyrst Valur, svo Breiðablik og nú Stjarnan. Ertu sáttur með tvö stig úr þessum leikjum?

„Já og nei. Við náðum jafntefli gegn Selfoss. Spilum svo þremur dögum seinna við Val sem við reyndar töpuðum. Þremur dögum seinna er það Breiðablik þar sem jafntefli var niðurstaðan. Við fengum reyndar góða pásu fyrir þennan leik og spilum við Stjörnuna á útivelli og náum í punkt þannig að maður getur alveg verið ánægður fá þessa punkta á móti efstu liðunum en þessi deild hefur verið að sýna það að öll lið geta unnið öll önnur lið og þess vegna er maður pínu súr að hafa ekki náð í einhvern sigur í þessum leikjum en svona er boltinn bara,“ sagði Andri Hjörvar Albertsson.

Næsti leikur Þórs/KA í Pepsi Max-deild kvenna er þriðjudaginn 17. ágúst en þá á liðið heimaleik gegn Tindastóli á Salt Pay-vellinum á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert