Fundu ekki sigurmark á Meistaravöllum

Matthías Vilhjálmsson rís hér hæst til að koma FH-ingum í …
Matthías Vilhjálmsson rís hér hæst til að koma FH-ingum í forystu á Meistaravöllum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

KR og FH skildu jöfn á Meistaravöllum í 16. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld, 1:1. Gestirnir úr Hafnarfirðinum voru manni færri í um hálftíma en héldu út þunga pressu KR-inga.

Leikir þessara liða hafa oft skipt meira máli í toppbaráttunni en nú. KR-ingar misstu af tækifæri til að nálgast topplið Vals þegar þeir töpuðu viðureign Reykjavíkurliðanna á Hlíðarenda í síðustu umferð, 1:0, og voru fyrir leiki kvöldsins í 5. sæti með 25 stig, átta stigum frá Völsurum. Þá fengu FH-ingar skell gegn HK á heimavelli í síðasta leik, töpuðu 4:2, og aðeins búnir að vinna tvo af síðustu fimm leikjum sínum fyrir heimsóknina í Vesturbæinn.

Byrjunin á kvöldinu var hins vegar fjörug og minnti á fræg einvígi þessara knattspyrnustórvelda. Kennie Chopart skaut framhjá úr dauðafæri strax á upphafsmínútum leiksins og FH-ingurinn Steven Lennon skallaði yfir af stuttu færi stuttu síðar. Gestirnir úr Hafnarfirðinum komust svo hins vegar í forystu á 8. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson reis manna hæst í vítateignum til að skalla boltann í bláhornið vinstra megin eftir fína hornspyrnu Jónatans Inga Jónssonar.

Heimamenn brugðust hins vegar hratt og örugglega við. Baldur Logi Guðlaugsson missti boltann klaufalega við eigin vítateig til Kennie Choparts sem sendi fyrir og Stefán Árni Geirsson skoraði af stuttu færi við fjærstöngina, staðan orðin 1:1 eftir stundarfjórðung.

Eftir þessa fjörugu byrjun virtust þjálfarar beggja liða átta sig á því að mörkin yrðu alltof mörg á Meistaravöllum með þessu áframhaldi og tókst vel til að þétta raðirnar, báðum megin á vellinum. Úr varð öðruvísi leikur en ekki síður skemmtilegur er leikmenn tókust vel á, sérstaklega á miðjunni.

Staðan var jöfn í hálfleik, 1:1, og áfram tókust liðin ágætlega á eftir hlé án þess þó að skapa mikið af eftirminnilegum færum. FH-ingar komu sér svo í erfiða stöðu á 63. mínútu þegar Guðmundur Kristjánsson reif niður Pálma Rafn Pálmason, sem var á leiðinni í álitlega skyndisókn. Guðmundur var á gulu spjaldi og fékk þarna sitt annað slíkt og þar með rautt. FH-ingar kláruðu leikinn því manni færri.

Það féll því KR-ingum í skaut að reyna að nýta liðsmuninn og kreista fram sigurmark. Þeir reyndu, og komust sennilega næst því þegar Kjartan Henry Finnbogason rétt missti af góðri fyrirgjöf Choparts nokkrum mínútum fyrir leikslok. Allt kom þó fyrir ekki og urðu liðin að sættast á jafntefli.

FH-ingar geta kannski þokkalega vel við unað, sérstaklega í ljósi þess að þeir léku manni færri í næstum hálftíma. Aftur á móti var þetta kannski síðasti séns KR-inga til að halda veikri titilvon sinni á lífi. Valsarar töpuðu afar óvænt gegn nýliðum Leiknis úr Reykjavík fyrr í dag og KR-ingar misstu því af tækifæri í kvöld. Þeir eru áfram í 5. sæti, nú með 26 stig, sjö stigum frá Val en styttra er í næstu lið og auðvitað er baráttan um Evrópusæti áfram mikilvæg.

Víkingar eru með 30 stig í öðru sætinu, KA með 27 og Breiðablik 26. FH siglir heldur lygnan sjó í neðri hlutanum með 18 stig í 7. sæti, að vísu ekki nema fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

KR 1:1 FH opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu Ægir Jarl nær skallanum af löngu færi, setur boltann upp í loftið og hátt yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert