Glæsilegur sigur Leiknis á Val

Frá leik liðanna í Breiðholtinu í dag.
Frá leik liðanna í Breiðholtinu í dag. mbl.is/Sigurdur Unnar Ragnarsson

Leiknir vann frábæran sigur á Valsmönnum í Breiðholtinu í dag. Andrés Manga Escobar skoraði sigurmark leiksins á 81. mínútu þegar hann slapp einn í gegn og setti hann snyrtilega framhjá Hannesi í markinu.

Það voru Leiknismenn sem fengu hættulegri færi í leiknum en þeirra helsta færi fyrir utan markið fékk Gyrðir Hrafn á 64. mínútu en þá átti Leiknir aukaspyrnu við miðlínu sem Emil Berg sendi inn á teiginn beint á Gyrði sem var þar einn og óvaldaður en Hannes varði skot hans meistaralega.

Það var svo á 81. mínútu sem að Daníel Finns átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Valsmanna sem varð til þess að Escobar slapp einn í gegn og setti hann snyrtilega framhjá Hannesi í markinu. Frábær og sanngjarn sigur hjá Leiknismönnum.

Sigur Leiknismanna þýðir að þeir eru með 21 stig í 6. sæti deildarinnar. Valsmenn eru enn á toppnum þrátt fyrir tap með 33 stig.

Þessi leikur í Breiðholti í dag fer alls ekki í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi en það var vægast sagt lítið að frétta og í raun lítið markvert sem gerðist fyrir utan nokkur hálffæri. Leiknismenn voru með svör við öllum sóknaraðgerðum Vals og reyndi í raun bara einu sinni á Smit í markinu en það var í uppbótartíma þegar Patrick Pedersen náði lausum skalla á markið sem Smit varði í horn.

Hrósa ber Sigurði Höskuldssyni þjálfara Leiknismanna fyrir upplegg liðsins en eins og flestir vita er þeirra lang besti maður í sumar, Sævar Atli Magnússon farinn í Lyngby. Það var þó ekki að sjá á leik liðsins í dag og stigu hreinlega aðrir menn upp fyrir vikið. Ber þar helst að nefna Manga Escobar sem að var allt í öllu í sóknarleik Leiknis og kórónaði hann frammistöðu sína með því að skora sigurmarkið.

Öll vörn Leiknismanna eins og hún leggur sig var frábær í leiknum og eins og fyrr segir gáfu nánast ekki eitt einasta færi á sér.

Leiknismenn eru með sigrinum komnir lang leiðina með það að tryggja veru sína í deild þeirra bestu á næsta tímabili en þeir eru komnir með 21 stig og ætti það að duga til þess að halda sér í deildinni. En með spilamennsku líkt og þeir sýndu í dag þurfa þeir ekki að hafa neinar áhyggjur því þeir munu safna sér fleiri stigum eins og þeir spiluðu í dag.

Andrés Manga Escobar skoraði sigurmarkið.
Andrés Manga Escobar skoraði sigurmarkið. mbl.is/Haukur Gunnarsson
Leiknir R. 1:0 Valur opna loka
90. mín. Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert