Dramatískt sigurmark í Kópavogi

Sindri Snær Magnússon og Oliver Sigurjónsson eigast við í Kópavogi.
Sindri Snær Magnússon og Oliver Sigurjónsson eigast við í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik sigraði ÍA 2:1 í leik liðanna í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Það voru aftur á móti gestirnir sem komust yfir en mark þeirra skoraði Hákon Ingi Jónsson strax á 6. mínútu leiksins.

Eftir markið bökkuðu Skagamenn ansi mikið og sótti Breiðablik látlaust. Á 24. mínútu leiksins náði Breiðablik að jafna metin en þá skoraði Viktor Karl Einarsson eftir góða sendingu frá Árna Vilhjálmssyni.

Breiðablik hélt áfram að sækja eftir þetta jöfnunarmark en ekki tókst þeim að koma boltanum í netið þrátt fyrir fjölmörg ágæt færi. Það besta var færi sem Árni Vilhjálmsson fékk á 38. mínútu leiksins en boltinn barst óvænt til hans í teig Skagamanna en skot hans fór fram hjá.

Í seinni hálfleik hélt Breiðablik áfram að að sækja og Skagamenn að verjast. Það var ekki fyrr en á 85. mínútu að Breiðablik skoraði sigurmarkið en þar var á ferðinni Árni Vilhjálmsson en hann skoraði úr vítaspyrnu sem hafði verið dæmd á Óttar Bjarna Guðmundsson fyrir brot á Árna.

Þessi sigur Breiðabliks þýðir að liðið er núna fjórum stigum á eftir Valsmönnum sem eru á toppnum í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. Breiðablik á aftur á móti einn leik til góða og geta því með sigri í þeim leik minnkað forystu Valsmanna í eitt stig. Skagamenn sitja áfram sem fastast á botni deildarinnar en liðið er með 12 stig eftir 17 leiki.

Næstu tveir leikir Breiðabliks eru gegn KA en fyrst mætast liðin á Kópavogsvelli á laugardaginn og svo mætast liðin aftur miðvikudaginn 25. ágúst á Greifavellinum á Akureyri. Skagamenn mæta KR í næstu umferð í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Norðurálsvellinum á sunnudaginn.

Breiðablik 2:1 ÍA opna loka
90. mín. Kristinn Steindórsson (Breiðablik) fer af velli
mbl.is