Spennandi að sjá hvar við stöndum

Elísa Viðarsdóttir leikur með Völsurum í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Elísa Viðarsdóttir leikur með Völsurum í Meistaradeild Evrópu í kvöld. mbl.is/Íris

Valskonur eiga erfitt verkefni fyrir höndum í dag er þær mæta þýska stórliðinu Hoffenheim í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Leikið er í Zürich í Sviss og hefst viðureignin klukkan 12 að íslenskum tíma.

„Það er ótrúlega gaman að fá að spreyta sig gegn bestu liðum Evrópu og við erum allar klárar í bátana, hlökkum mikið til leiksins,“ sagði Elísa Viðarsdóttir í samtali við mbl.is í gær. „Við reiknum með frábæru fótboltaliði, þetta er náttúrlega þýskt lið og það spilar eflaust þéttan og góðan fótbolta. Við búum okkur allavega undir að spila gegn góðu liði.“

Sigurvegarinn í dag mætir sigurvegaranum úr viðureign Zürich frá Sviss og AC Mil­an frá Ítal­íu á föstudaginn í úrslitaleik um hvaða lið fer áfram í næstu umferð. Guðný Árna­dótt­ir fyrr­ver­andi leikmaður Vals er í röðum AC Mil­an.

„Það er spennandi að sjá hvar við stöndum miðað við þessi bestu lið frá stærstu þjóðunum. Við teljum okkur vera með gott lið, marga reynda leikmenn og unga og efnilega til móts við það. Það verður spennandi að máta okkur við þessar stóru stelpur ef svo má segja,“ sagði Elísa en Valskonur eru efstar á Íslandsmótinu hér heima og mæta því fullar sjálfstrausts í þetta verkefni.

„Við höfum spilað vel undanfarnar vikur og mánuði og teljum okkur jafnvel alltaf vera að bæta okkur jafnt og þétt. Við höfum náð góðum stöðugleika í deildinni, vorum aðeins höktandi í byrjun en samt að ná í úrslit. Mér finnst það alltaf góðs viti þegar þú ert ekki alveg á þínu besta en ert samt að vinna og ná í stig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert