Ætluðum að spila okkur inn í markið

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Miðjumaðurinn Viktor Karl Einarsson skoraði annað marka Breiðabliks í 2:0-sigrinum gegn KA í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Hann var ánægður með frammistöðu Blika í leiknum og sagði þá spennta fyrir toppbaráttunni sem fram undan er.

„Mér fannst þetta virkilega fagmannleg frammistaða hjá okkur. Við byrjuðum af krafti og sköpuðum mörg færi sem við fórum illa með. Við vorum kannski aðeins of gjafmildir fyrir framan markið, ætluðum að spila okkur inn í það þarna nokkrum sinnum. Svo voru það einstaklingsgæði sem komu okkur í 1:0, frábært mark hjá Gísla [Eyjólfssyni],“ sagði Viktor Karl í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Gísli skoraði fyrra markið í fyrri hálfleik eftir laglegan sprett. „Eftir það stjórnuðum við svolítið leiknum. Svo náðum við þessu seinna marki og þá gátum við leyft okkur aðeins að reyna að halda í boltann, róa þetta aðeins niður og klára leikinn,“ bætti hann við, en Viktor Karl innsiglaði sigurinn á 73. mínútu eftir undirbúning Gísla.

Með sigrinum fór Breiðablik upp í annað sæti deildarinnar og er nú með 36 stig eftir 17 leiki, einu stigi á eftir Val sem er í toppsætinu með 37 stig eftir jafnmarga leiki. Næsti leikur Breiðabliks er einmitt gegn KA á Greifavelli á Akureyri, en leikurinn í kvöld var frestaður leikur.

„Þetta var mikilvægur sigur. Við erum náttúrlega að spila við þá aftur á miðvikudaginn. Það verður örugglega bara það sama uppi á teningnum þar, sama harka. Við erum komnir þarna upp að hlið Vals og það er bara gaman. Vonandi verður þetta barátta fram að síðasta leik. Við erum bara spenntir og klárir í það,“ sagði Viktor Karl að lokum í samtali við mbl.is.

Viktor Karl Einarsson skoraði síðara mark Breiðabliks í kvöld.
Viktor Karl Einarsson skoraði síðara mark Breiðabliks í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason
mbl.is