Rhodes hetja Þróttar í Laugardalnum

Shaina Faiena í baráttunni við Elísabetu Freyju Þorvaldsdóttur í Laugardalnum.
Shaina Faiena í baráttunni við Elísabetu Freyju Þorvaldsdóttur í Laugardalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandarríkjakonan Dani Rhodes skoraði sigurmark Þróttar úr Reykjavík þegar liðið bar sigurorð af Þór/KA með minnsta mun, 1:0, í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Markið kom seint í leiknum og þýðir að Þróttur er áfram í 3. sæti deildarinnar.

Þróttur hóf leikinn betur með því að setja mikla pressu á Þór/KA ofarlega á vellinum. Í nokkur skipti komust heimakonur í álitlegar stöður en varnarmenn gestanna ýmist hreinsuðu frá á ögurstundu eða Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA kom vel út á móti og greip boltann.

Á 14. mínútu kom besta færi Þróttara þegar Andrea Rut Bjarnadóttir skallaði yfir af stuttu færi eftir laglegan sprett og góða fyrirgjöf Rhodes.

Eftir hálftíma leik skoraði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir að vísu eftir stórkostlega stungusendingu Katherine Cousins en var dæmd rangstæð, sem virtist ansi tæpt eða hreinlega rangt.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn óx Þórs/KA-konum óx ásmegin og hófu að ógna meira. Saga Líf Sigurðardóttir komst nálægt því að koma gestunum í forystu á 35. mínútu þegar bylmingsskot hennar af löngu færi small í þverslánni.

Hvorugu liðinu tókst hins vegar að skora í fyrri hálfleiknum og því markalaust í leikhléi.

Jafnræði var áfram með liðunum í síðari hálfleiknum og fengu þau bæði kjörin tækifæri til þess að skora.

Karen María Sigurgeirsdóttir, miðjumaður Þórs/KA, átti skot fyrir miðjum vítateignum á 63. mínútu og tveimur mínútum síðar skallaði Andrea Rut Bjarnadóttir, miðjumaður Þróttar, í þverslá af örstuttu færi.

Ísinn var loks brotinn á 76. mínútu þegar Rhodes slapp skyndilega alein í gegn, brunaði inn í vítateig og kláraði glæsilega með vinstri fótar skoti í fjærhornið framhjá Hörpu, 1:0.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og Þróttur heldur þar með í þriðja sæti deildarinnar og á auk þess leik til góða á Selfoss, sem er í fjórða sætinu með jafnmörg stig og vann einnig sinn leik í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi og mikil barátta í algleymingi allan tímann. Þróttur reyndist þó að lokum hlutskarpara og geta þakkað hinni eldsnöggu Rhodes fyrir en hún sýndi mikla yfirvegun og mikil gæði þegar hún skoraði laglegt mark sitt.

Þróttur R. 1:0 Þór/KA opna loka
90. mín. Ísa­bella Anna Húberts­dótt­ir (Þróttur R.) á skot framhjá Boltinn dettur fyrir Ísabellu Önnu í teignum en skotið hennar úr frábærri stöðu fer framhjá!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert