Sekúnduspursmál í sigrinum gegn Englandi

„Fyrir mér þá er það tæklingin á Jamie Vardy sem stendur upp úr á ferlinum,“ sagði Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ragnar, sem er 35 ára gamall, er á meðal leikjahæstu leikmanna íslenska karlalandsliðsins frá upphafi með 97 A-landsleiki.

Hann var í lykilhlutverki hjá íslenska liðinu á lokamóti EM 2016 í Frakklandi en hann skoraði annað mark Íslands í 2:1-sigri gegn Englandi í sextán liða úrslitum keppninnar í Nice og átti einnig ótrúlega tæklingu á Vardy, framherja Leicester og einn besta framherja ensku úrvalsdeildarinnar, á mótinu.

„Ég hef aldrei haft miklar áhyggjur af því að skora mörk þótt það sé auðvitað alltaf gaman,“ sagði Ragnar.

„Ég er ekki í landsliðinu til þess að skora mörk og hlutverk okkar varnarmannanna er að verjast. Þetta var akkúrat augnablikið þar sem ég þurfti að vera inn á vellinum.

Ég sá þetta gerast áður en sendingin kemur og ég var byrjaður að snúa mér við. Ef ég hefði verið sekúndubroti of seinn hefði ég líklegast fellt hann og þeir hefðu fengið víti,“ sagði Ragnar meðal annars.

Viðtalið við Ragnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

Tæklingin fræga í leiknum gegn Englandi í Nice.
Tæklingin fræga í leiknum gegn Englandi í Nice. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert