Buðu þagnarskyldusamning fyrir brot landsliðsmanns

Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Íslands bauð konu sem varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu að skrifa undir þagnarskyldusamning gegn því að fá miskabætur.

Í fréttum RÚV var rætt við Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur sem ónafngreindur landsliðsmaður í fótbolta braut á á skemmtistað í Reykjavík árið 2017.

„Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund,“ segir Þórhildur en hún kærði málið til lögreglu.

Fullyrti að sambandinu hafi ekki borist tilkynning

Hálfu ári eftir atvikið ætlaði faðir Þórhildar að fara á vináttulandsleik. Þegar hann áttaði sig á að umræddur knattspyrnumaður er í landsliðshópnum sendir hann stjórnarmeðlimum KSÍ tölvupóst og greinir frá kærunni.

Faðir Þórhildar fékk svar frá Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, sem sagðist taka málið alvarlega. 

Í Kastljósi í gær fullyrti Guðni hins vegar að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Í kvöldfréttum baðst hann svo afsökunar á þessum ummælum sínum.

Eftir svar Guðna fékk Þórhildur símtal frá lögmanni sem bauð henni að koma á fund hjá KSÍ þar sem henni yrði boðin þagnarskyldusamningur og miskabætur. Hún neitaði því boði.

Þórhildur fékk þá símtal frá öðrum lögmanni sem boðaði hana á fund þar sem landsliðsmaðurinn vildi biðjast afsökunar og greiddi henni miskabætur. 

mbl.is