Vorum ekki að spila við Barcelona

Ragnar Bragi Sveinsson og Ragnar Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Ragnar Bragi Sveinsson og Ragnar Sigurðsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Ég held að þetta sé stærsta tapið á mínum ferli og það á heimavelli, fyrir framan okkar fólk í þeirri blóðugu baráttu sem við erum í. Þetta er skammarlegt,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 7:0-stórtap gegn Breiðabliki á heimavelli í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Fylkismenn enda kvöldið í fallsæti eftir tapið slæma þar sem HK vann sigur á Keflavík í Kórnum og hífði sig upp töfluna. Aðspurður hvort botninum hafi verið náð hjá Fylki í sumar stóð ekki á svari hjá fyrirliðanum. „Já.“

„Andskotinn hafi það, þetta er íslenski boltinn. Það er ekki eins og við höfum verið að spila við Barcelona, við höfum spilað á móti þessu liði margoft. Þetta var hrikalega lélegt hjá okkur, að öllu leyti."

Nú tekur við landsleikjahlé og svo eru þrjár umferðir eftir. Ragnar segir blóðuga baráttu framundan. „Það þarf að gleyma þessum leik og svo eru þrír leikir eftir, það verður blóðug barátta og við sem erum eldri verðum að hjálpa ungu strákunum í gegnum þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert