Kolbeinn sá sem greiddi Þórhildi miskabætur

Kolbeinn Sigþórsson í leik með íslenska A-landsliðinu síðastliðið haust.
Kolbeinn Sigþórsson í leik með íslenska A-landsliðinu síðastliðið haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson er knattspyrnumaðurinn sem greiddi Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur miskabætur eftir að hafa brotið á henni á skemmtistað haustið 2017.

Vísir greinir frá þessu og kveðst hafa heimildir fyrir.

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað í gær að taka Kolbein úr íslenska landsliðshópnum vegna málsins. Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari kom ekki að þeirri ákvörðun.

Í yfirlýsingu frá stjórninni var einnig greint frá því að Rúnar Már Sigurjónsson hefði dregið sig úr hópnum en að það væri bæði vegna meiðsla og persónulegra ástæðna. Hann spilaði í gær og skoraði fyrir CFR Cluj í 4:1-sigri liðsins gegn Steaua Búkarest í rúmensku úrvalsdeildinni.

Þórhildur Gyða lagði, ásamt annarri konu, fram kæru í kjölfar þess að íslenskur landsliðsmaður, sem nú hefur komið í ljós að er Kolbeinn, beitti þær kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi með því að grípa í klof þeirra og taka þær hálstaki á B5-skemmtistaðnum haustið 2017.

Sem áður segir var það mál leyst með sátt þar sem Kolbeinn gekkst við broti sínu og greiddi Þórhildi Gyðu miskabætur. Er hann sagður hafa gert slíkt hið sama í máli hinnar konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert