Níu félög til viðbótar kalla eftir auka ársþingi KSÍ

Fyrir utan skrifstofu KSÍ í gær.
Fyrir utan skrifstofu KSÍ í gær. mbl.is/Sigurður Unnar

Níu aðildarfélög innan Knattspyrnusambands Íslands, sem standa utan hagsmunasamtaka efstu deildar karla, Íslensks toppfótbolta, hafa í sameiningu sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau taka undir tilkynningu ÍTF frá því fyrr í dag þar sem kallað var eftir því að stjórn KSÍ boði til auka ársþings.

Félögin níu eru Einherji, ÍR, Magni, Leiknir Fáskrúðsfirði, Hamar, Völsungur, Víðir, Njarðvík og KV og íhuga nú fleiri félög að slást í hópinn og kalla eftir því að stjórn KSÍ boði til aukaþings og kjósi þar nýja bráðabirgðastjórn.

Yfirlýsingin frá félögunum níu í heild sinni:

„Ósk um boðun til aukaþings Knattspyrnusambands Íslands
Í samræmi við 13. grein laga Knattspyrnusambands Íslands óska undirrituð fyrir hönd knattspyrnudeilda sinna eftir því að stjórn sambandsins boði tafarlaust til aukaþings.

Á síðustu dögum hafa farið fram umræður og verið teknar ákvarðanir innan stjórnar sem að augljóst er að þarfnast aðkomu aðildarfélaga sambandsins. Orðspor íslenskrar knattspyrnu er stórlega skaðað og því þarf tafarlaust að boða til þings og móta viðbrögð til framtíðar sem nýtur trausts allra aðildarfélaga og íslensks samfélags.

Neðangreind félög skora auk þess á sitjandi stjórnarmenn að skoða grein 13.5. í lögum KSÍ þar sem segir:

13.5. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf.

Á aukaþingi gefst sitjandi stjórnarmönnum færi á að endurnýja umboð sitt til starfa eða stíga frá þeim, með heildarhagsmuni íþróttarinnar að leiðarljósi.

Framundan er vinna sem horfa þarf til hagsmuna knattspyrnunnar á Íslandi. Krafa samfélagsins um gagnsæ viðbrögð og vinnuferli sem tekur á augljósum mistökum undanfarinna vikna, mánaða og ára getur einfaldlega ekki beðið. Til að traust ríki um þá vinnu er aðkoma allra aðildarfélaga KSÍ alger nauðsyn.

Virðingarfyllst,
Dagný Steindórsdóttir, gjaldkeri knattspyrnudeildar Einherja
Magnús Þór Jónsson, formaður knattspyrnudeildar ÍR
Gísli Gunnar Oddgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Magna
Magnús Björn Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis F.
Ágúst Örlaugur Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Hamars
Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Völsungs
Einar Karl Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víðis
Brynjar Freyr Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur
Auðunn Örn Gylfason, formaður KV“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert