Stjórn KSÍ vissi af meintum brotum landsliðsmanna

Guðni Bergsson og Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi íslenska liðsins …
Guðni Bergsson og Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi íslenska liðsins í apríl 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn KSÍ, Knattspyrnusambands Íslands, vissi af meintum brotum leikmanna karlalandsliðsins samkvæmt heimildum mbl.is.

Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, lét af störfum hjá sambandinu í gær en sambandið hefur legið undir mikilli gagnrýni undanfarna daga fyrir þöggun og meðvirkni með gerendum innan sambandsins.

Mikið hefur gustað um íslenska karlalandsliðið undanfarnar vikur eða allt frá því að Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn á Bretlandi í júlí, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.

Síðan þá hafa sögur um meint ofbeldis- og kynferðisbrot leikmanna landsliðsins verið í umræðunni, sögur sem hafa af og til skotið upp kollinum í gegnum tíðina á samfélagsmiðlum, sér í lagi þegar umræðan hefur snúið að karlalandsliðinu.

Í yfirlýsingu stjórnar KSÍ kemur meðal annars fram að hún sjái sér ekki fært að stíga til hliðar eins og sakir standa þar sem sambandið yrði óstarfshæft.

Vegna yf­ir­lýs­ing­ar sem stjórn­in sendi frá sér þann 17. ág­úst sl. þar sem brugðist var við ásök­un­um um of­beldi leik­manna karla­landsliðsins, er rétt að taka fram að yf­ir­lýs­ing­in byggðist á tak­mörkuðum upp­lýs­ing­um sem þá lágu fyr­ir hjá stjórn, en þar vantaði gögn og frek­ari upp­lýs­ing­ar, sem hafa komið í ljós á síðari stig­um,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni sem stjórnin sendi frá sér í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina