Birkir og Birkir Már leika sína 100. landsleiki

Birkir Bjarnason á Laugardalsvelli á fimmtudaginn, í landsleik nr. 99.
Birkir Bjarnason á Laugardalsvelli á fimmtudaginn, í landsleik nr. 99. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarson leika báðir sinn 100. landsleik er Ísland mætir Norður-Makedóníu á Laugardalsvellinum í undankeppni HM í dag. Áður hefur aðeins Rúnar Kristinsson leikið 100 landsleiki fyrir Íslands hönd en hann er sá leikjahæsti frá upphafi.

Báðir léku þeir sinn 99. landsleik er Ísland laut í lægra haldi gegn Rúmeníu á fimmtudaginn var, 2:0. Birkir Bjarnason lék sinn fyrsta landsleik árið 2010 og hefur síðan þá skorað 14 mörk en hann er 33 ára gamall. Birkir Már er orðinn 36 ára en hann steig sín fyrstu skref með A-landsliðinu árið 2007. Hann á þrjú landsliðsmörk en tvö þeirra hafa komið á síðasta árinu.

Þeir Birkir og Birkir Már eiga möguleika á því að jafna eða slá leikjamet Rúnars sem lék á sínum tíma 104 landsleiki fyrir Ísland, síðast í fræknum 2:0-sigri á Ítalíu á Laugardalsvelli sumarið 2004. Til þess þarf annar þeirra eða báðir að spila fjóra eða alla fimm leiki sem Ísland á eftir í undankeppninni. Gegn Þýskalandi á miðvikudaginn og leikina fjóra í október og nóvember.

Birkir Már Sævarsson í leiknum gegn Rúmeníu á fimmtudaginn.
Birkir Már Sævarsson í leiknum gegn Rúmeníu á fimmtudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert