Reynum að taka rétt skref með þessa ungu drengi

Arnar Þór Viðarsson á Laugardalsvellinum í dag, fyrir leik Íslands …
Arnar Þór Viðarsson á Laugardalsvellinum í dag, fyrir leik Íslands og Norður-Makedóníu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir á að hyggja verður maður að vera sáttur með stig ef þú spilar eins og við gerðum fyrstu 70 mínúturnar. Þú virðir stigið,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir 2:2-jafntefli gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í dag.

„Þetta er mikilvægt andlegt stig, þó við séum hundfúlir með að geta ekki unnið Norður-Makedóníu heima. Sigur hefði haldið okkur á floti í riðlinum, eins skrítið og það hljómar,“ bætti hann við en Arnar ræddi við blaðamenn á blaðamannafundi í Laugardalnum strax að leik loknum.

Gestirnir komust í forystu snemma leiks með marki í kjölfar hornspyrnu sem íslenska vörnin virtist eiga að geta komið í veg fyrir. Arnar segir þjálfarana bera ábyrgð á því hvernig liðið verst föstum leikatriðum. „Ábyrgðin er okkar. Það sem ég sagði við strákana í hálfleik er að tempóið var ekki nógu hátt, við vorum ekki að setja pressu á andstæðinginn. Svo vorum við að henda einföldum innköstum í lappirnar á andstæðingnum. Við fáum á okkur mark úr hornspyrnu þar sem er hlaupið framhjá okkur. En ábyrgðin er alltaf hjá mér.“

Ísland er með fjögur stig í næstneðsta sæti J-riðilsins og, eins og Arnar benti á, gefur stigið kannski ekki mikið. Hann er þó ánægður með þá ungu stráka sem komið hafa inn í landsliðið og hrósaði Brynjari Inga Bjarnasyni, sem var frábær í vörninni og skoraði fyrsta mark Íslands, og Andra Lucas Guðjohnsen sem jafnaði metin með sínu fyrsta landsliðsmarki í aðeins öðrum landsleiknum.

„Brynjar er búinn að taka stór skref á stuttum tíma. Það er ekkert leyndarmál að við erum að reyna taka rétt skref með alla þessa drengi. Það er stundum erfitt. Viðar Örn var ekki í hópnum til að byrja með, en var svo tekinn inn. Við vildum vera með Andra Lucas í hópnum til að hann gæti fengið þessa reynslu. Við erum að reyna taka réttu skrefin með þessa ungu stráka.“

Arnar viðurkennir að hann hafi verið gríðarlega ósáttur í hálfleik. „Ég man ekkert hvað ég sagði [í hálfleik], ég öskraði svo mikið að ég missti röddina. Labbaði svo út eftir þrjár mínútur og Eiður tók við.

Þá segir hann endakafla leiksins geta gefið liðinu sjálfstraust fyrir næsta verkefni, sem er gegn Þýskalandi á miðvikudaginn, einnig á heimavelli. „Þetta hjálpar þessum yngri strákum. Við erum að fara núna upp á hótel, þið getið ímyndað ykkur að fara þangað eftir 2:0 tap og eiga Þýskaland eftir, sem er besta liðið í riðlinum. En auðvitað hefðum við viljað vinna.“

Að lokum sagðist Arnar ekki hafa íhugað að segja af sér en gustað hefur um knattspyrnuhreyfinga undanfarnar vikur. „Ég hef ekki íhugað það. Þið megið ekki misskilja, þó ég tali um þessa leiðinlegu hluti, að þetta er ótrúlega skemmtilegt líka. Verkefnið hefur ekki verið auðvelt en við höfum alls ekki íhugað að segja af okkur.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2021/09/05/frabaer_lokakafli_islands_bjargadi_stigi/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert