Sendi fráfarandi stjórn KSÍ afsökunarbeiðni

Það hefur gustað hressilega um Knattspyrnusamband Íslands undanfarna daga.
Það hefur gustað hressilega um Knattspyrnusamband Íslands undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Björn Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis frá Fáskrúðsfirði, sendi öllum meðlimum í fráfarandi stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, bréf á dögunum þar sem hann biðst afsökunar á að hafa krafist afsagnar stjórnarinnar.

Þetta kom fram á Facebook-síðu Magnúsar í kvöld en félög úr neðri deildunum sendu frá sér yfirlýsingu á dögunum þar sem skorað var á stjórnina að segja af sér í kjölfar gagnrýni um þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

Ég setti nafnið mitt (og Leiknis) undir bréf frá ,,neðrideilda félögum” til stjórnar KSÍ, sem í raun fól í sér kröfu um brotthvarf stjórnarinnar í heild, með hraði,“ segir í yfirlýsingu Magnúsar á Facebook.

Það var heimska. Og algjörlega ómaklegt. Þetta fólk hefur starfað af heilindum og ósérhlífni fyrir knattspyrnuhreyfinguna, flest í áratugi. Stjórn KSÍ er skipuð fulltrúum aðildarfélaganna, kosnum á ársþingum og þar standa þeir skil á störfum sínum og stöðu mála hjá sambandinu. Og vel að merkja stjórnarstörfin eru ólaunuð.

Auðvitað áttu allir að anda djúpt og vinna þessi mál betur og mæta síðan til hefðbundins knattspyrnuþings í febrúar,“ sagði Magnús meðal annars.

Í bréfinu sem hann sendi fráfarandi stjórnarmeðlimum skoraði hann meðal annars á þá að gefa aftur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir aukaþingið sem fer fram 2. október.

 

mbl.is