Ekki 18 ára heldur 25 ára

Ísak Bergmann Jóhannesson með boltann í leik Íslands og Þýskalands …
Ísak Bergmann Jóhannesson með boltann í leik Íslands og Þýskalands í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í síðustu tveimur leikjum liðsins í undankeppni HM 2022, gegn Norður-Makedóníu og Þýskalandi í kvöld.

Miðjumaðurinn ungi, sem er einungis 18 ára gamall, gekk til liðs við Köbenhavn í Danmörku á dögunum frá Norrköping í Svíþjóð.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var ánægður með frammistöðu Ísaks í nýliðnum landsleikjaglugga og hrósaði honum á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld.

„Ísak er yngsti leikmaðurinn í hópnum og jafnframt einn sá efnilegasti,“ sagði Arnar.

„Hann er kominn lengst á veg hvað varðar spiltíma og leiki hjá sínu félagsliði af þessum yngri leikmönnum liðsins. Hann er með reynslu úr sænsku úrvalsdeildinni og færði sig svo núna yfir  í þá dönsku.

Þessir ungu leikmenn eru ekki komnir á þann stað að við getum sagt að þeir séu geggjaðir A-landsliðsmenn. Þeir hins vegar verða að fá þessa leiki til að geta tekið næsta skref.

Hann hefur ótrúlegan leiksskilning og að því leytinu til er hann ekki 18 ára gamall heldur 25 ára. Auðvitað vantar aðeins upp á kraft og styrk en hann er klárlega einn af okkar efnilegustu leikmönnum og kominn mjög langt miðað við aldur.

Ég veit upp á hár hvert ég vil ná þessum strák og öllum hinum yngri leikmönnunum en það er mjög mikilvæg fyrir þá alla að hafa eldri leikmennina með sér,“ bætti Arnar við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert