Hannes hættur með landsliðinu

Hannes Þór Halldórsson þakkar fyrir sig eftir síðasta landsleikinn í …
Hannes Þór Halldórsson þakkar fyrir sig eftir síðasta landsleikinn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, tilkynnti í samtali við RÚV rétt í þessu að hann væri hættur að leika með landsliðinu, tíu árum eftir að hann lék sinn fyrsta leik. Hannes lék sinn 77. og síðasta landsleik gegn Þýskalandi í kvöld.

Hannes, sem er 37 ára, lék sinn fyrsta landsleik gegn Kýpur í undankeppni EM 2012 og hélt þá hreinu í 1:0-sigri. Hann lék alla leiki Íslands á lokamótum EM 2016 og HM 2018.

„Ég er búinn að vera í þessu landsliði í tíu ár og það eru með mínum bestu minningum. Það er hinsvegar komið að kynslóðaskiptum og við eigum fullt af frábærum markvörðum. Það er því rétti tíminn fyrir mig að stíga til hliðar og leyfa þeim að taka við keflinu, án þess að ég sé að anda ofan í hálsmálið á þeim. Ég spilaði minn síðasta landsleik í kvöld,“ sagði Hannes við RÚV.

„Ég er mjög sáttur með þennan feril og það er ekkert eftir. Ég hélt þetta væri komið eftir leikinn á Wembley en svo ákváðum við að taka slaginn í þessari keppni en mér líður þannig núna að þetta sé komið gott. Þetta er það rétta í stöðunni,“ bætti hann við. 

mbl.is