Eins blaut tuska og þær geta orðið en við tókum okkur saman

Dóra María Lárusdóttir úr Val.
Dóra María Lárusdóttir úr Val. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Það er smá kúnst að gíra sig í leik þegar við erum búnar að tryggja okkur titilinn og tveir leikir eftir af mótinu,“ sagði Dóra María Lárusdóttir leikmaður Vals eftir 5:0 sigur á Selfossi í kvöld þegar liðin léku síðasta leik sinn í efstu deild kvenna í fótbolta.

Valur var búin að tryggja sér titilinn fyrir tveimur leikjum en gerðu jafntefli við nýliða Keflavíkur áður en Valsliðið sýndi mátt sinn og megin í kvöld.   „Við fengum óveður um síðustu helgi en núna toppuðum við, það var því tvennt ólíkt að spila þessa leiki en vitandi að við værum að fara taka á móti bikarnum og reyna eiga gott kvöld þá var ekki svo flókið að gíra sig upp fyrir þennan leik,“ bætti hún við. 

Dóra María er sátt við tímabilið og sagði stórt tap fyrir helstu keppinautum sínum um titilinn hafa vakið liðið svo um munaði.  „Mér fannst tímabilið svolítið öðruvísi en áður.  Yfirleitt hafa þetta verið tvö lið að berjast en eins og mótið byrjaði í sumar þá voru nokkur lið í toppbaráttunni en svo töpum við fæstum stigum.  Stóri skellurinn kemur hérna í tapinu fyrir Blikum á okkar heimavelli en þá tókum við okkur saman í andlitinu, áttum góðan fund, fórum yfir stöðuna og allt fór upp á við eftir það.   Það var hressileg vakning að tapa fyrir Blikum, eins blaut tuska og þær geta orðið en einhvern vegin náðum við að nýta okkur það til góðs.   Auðvitað hjálpar okkur að Blikar fóru að hiksta, það efldi okkur.“

Dóra María er ekki alveg viss um hvort hún haldi áfram að spila. „Ég veit ekki hvernig verður með liðið.  Maður upplifir mikla ánægju meðal leikmanna og trúi og vona að sem flestar verði áfram.  Ég veit samt ekki alveg með sjálfa mig.  Maður eldist í þessu en mér líður mjög vel og ég gæti vel hugsað mér að halda áfram en yrði líka mjög sátt ef ég ákveddi að hætta.  Ég hugsa að sú ákvörðun verði tekin í einhverju næði í haust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert