Nú leggst ég undir feld en ætla að vera áfram í fótbolta

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get lítið um þennan leik sagt, ég er bæði sár og svekktur með frammistöðu okkar í fyrri hálfleik en við erum að spila á móti mjög svo góðu liði Vals, sem á hrós skilið fyrir umgjörð, frábært lið og frábæra þjálfara en ég vil meina að við eigum að geta sýnt betri leik og leyfðum þeim að spila mjög vel,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson þjálfari Selfoss eftir 5:0 tap fyrir Val að Hlíðarenda í kvöld þegar fram fór síðast leikur liðanna í Íslandsmótinu kvenna í fótbolta.

Þjálfarinn segir alla verða að læra af þessum leik.  „Það gekk vel að koma liði mínu í stemmingu fyrir þennan leik.  Við viljum alltaf bera okkur saman við þá bestu, Selfoss vill það.  Okkur varð hált á svellinu núna en þetta er bara til að læra af.  Klúbburinn verður að taka þetta inná sig eins og leikmenn og þjálfarar ef við ætlum að ná okkar markmiðum.“

Alfreð er hættur sem þjálfari Selfoss, hvað er framundan hjá honum?  „Það verður bara að koma í ljós.  Ég er hættur, þetta var minn síðasti leikur og núna leggst ég bara undir feld, sé hvað kemur en ég ætla að vera áfram í fótbolta.“

Þær skora úr færum sem við gefum þeim

Anna María Friðgeirsdóttir fyrirliði Selfoss var eðlilega ekki sátt við fimm marka fyrri hálfleik.  „Þetta var skelfilegur fyrri hálfleikur af okkar hálfu.  Við gáfum alltof mörg færi á okkur og Valur er með það mikil  gæði að liðið skorar úr færum, sem við gefum þeim. Auðvitað fengum við færi líka en við hefðum alveg getað gert betur á báðum endum vallarins en þetta var lélegur fyrri hálfleikur sem gerði útslagið.“

Fyrirliðinn er ekki ánægð með árangurinn í sumar en sátt að ýmsu öðru leiti.  „Mér finnst vonbrigði að ná ekki Meistaradeildarsæti, því ætluðum við að ná en heilt yfir var spilamennskan betri en oft áður.  Við missum stóra pósta á tímabilinu, sjálf missti ég af því hálfu.  Það kemur samt maður í manns stað, það eru margar ungar stelpur að stíga sín fyrstu skref í deildinni og þær stóðu sig frábærlega svo að framtíðin er björt.  Ég veit ekki með framhaldið hjá liðinu.  Við erum í augnablikinu þjálfaralausar og hef bara ekkert heyrt.  Veit samt að Brenna Lovera og Susanna Joy Friedrichs verða áfram en meira veit ég hreinlega ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert