Þjálfari Kórdrengja varð sér til skammar

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja í 1. deild karla í knattspyrnu, varð sjálfum sér til skammar í gær þegar lið hans gerði 2:2-jafntefli gegn Fram í Lengjudeildinni á Domusnova-vellinum í Breiðholti.

Fótbolti.net greindi fyrst frá en Kórdrengir leiddu 2:1-eftir venjulegan leiktíma. Davíð Smári var ósáttur við uppgefinn uppbótartíma leiksins og lét dómarana vita af því með þeim afleiðingum að hann fékk að líta rauða spjaldið.

Framarar jöfnuðu svo metin á 95. mínútu og þá varð allt vitlaust í Breiðholtinu. Davíð Smári rauk inn á völlinn og lét dómara leiksins, Egil Arnar Sigurþórsson, heyra það duglega. Heiðar Helguson, aðstoðarþjálfari Kórdrengja, þurfti svo að draga Davíð Smára af velli.

Þegar dómarinn flautaði svo til leiksloka rauk Davíð Smári aftur inn á völlinn og endaði það með því að hann reif spjöldin af dómara leiksins áður en hann sá að sér og skilaði þeim til baka.

Þetta er í annað sinn í sumar sem hann fær að líta rauða spjaldið á hliðarlínunni. Þjálfari Kórdrengja mun fá tveggja leikja bann fyrir sitt annað rauða spjald í sumar en bannið gæti lengst umtalsvert vegna hegðunar þjálfarans eftir að honum var vísað af velli.

Myndasyrpu Hafliða Breiðfjörð af atburðarásinni má sjá með því að smella hér.

mbl.is