„Virkilega skemmtilegur hópur að vinna með“

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir með boltann í dag.
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir með boltann í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Hjörvar Albertsson gat verið nokkuð brattur eftir viðburðaríkt sumar hjá Þór/KA í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Síðustu leikirnir í deildinni voru spilaðir í dag og gerði Þór/KA 0:0 jafntefli við Keflavík á heimavelli sínum í Þorpinu á Akureyri. Þór/KA lauk keppni í 6. sæti með 22 stig. Athyglisvert er að liðið náði aðeins í sjö stig á heimavelli sínum en 15 á útivöllum. 

Lið Þórs/KA spilaði hvern einasta leik í mikilli spennu og gátu úrslit því oft fallið hvernig sem er. Seigla og barátta var aðall liðsins og með Örnu Sif Ásgrímsdóttur í algjörum sérflokki var liðið líklegt til að ná stigi eða stigum gegn hvaða andstæðingi sem er.  

Sjötta sætið er ykkar hlutskipti eftir tímabilið. Er það ekki bara ágætis árangur þegar upp er staðið? 

„Jú, jú. Við vildum meira. Fyrir upphaf tímabilsins þá stefndum við hærra og við förum ekkert leynt með það að Þór/KA er þannig félag að við stefnum alltaf hátt og sagan er með þessu félagi þannig að það á að vera í efri pakkanum. Og eins og margir hafa komið inná þá er þessi deild kannski ekki eins sterk og hún hefur verið þannig að það var kjörið tækifæri til þess að gera góða hluti. Það eru leikir sem við hefðum viljað fá fleiri stig en fáum eitt stig en að sama skapi eru leikir sem við nælum í mjög sterkt eitt stig á móti góðum liðum þannig að þetta er svona 50/50 tímabil og kannski er endaniðurstaðan bara sanngjörn en við hefðum rosalega viljað landa sigri í dag og ná 5. sætinu." 

Það hefði svo sem ekki orðið þar sem Stjarnan vann sinn leik og tók það sæti. Hins vegar eruð þið búin að setja nýtt met í efstu deild í fjölda jafntefla á einu tímabili, sjö jafntefli er met í efstu deild kvenna. 

„Það er alltaf gaman að setja met, sjö jafntefli voru það.“ 

Liðið hjá þér hefur þroskast mikið í sumar og margar stelpur hafa verið að gera virkilega vel í sínum hlutverkum, ekki síst þegar leið á sumarið.

„Þegar ég á eftir að horfa á tímabilið í heild sinni aftur þá held ég að það verði akkúrat þannig að þá verður maður fyrst og fremst stoltur af liðsheildinni og hópnum, ekki bara þeim ellefu sem byrjuðu leikina heldur því hversu þéttar stelpurnar voru saman og hvað þær voru samheldnar. Þær gerðu þetta allt í takt á æfingum og í leikjum og alls utan þess þá er þetta virkilega skemmtilegur hópur að vinna með og fá aðeins að kenna. Margar þarna eru að þroskast og stíga stór skref og aðrar reynslumeiri að halda vel utan um þær yngri. Allt svona er til fyrirmyndar og var til fyrirmyndar í sumar. Ég get alveg tekið undir það." 

Og þá er það framhaldið. Þú hyggst halda áfram sem þjálfari og þá er væntanlega að bæta í og gera liðið enn sterkara fyrir næsta tímabil. Þú ert með góðan grunn til að byggja á. 

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum og mig langar klárlega að halda áfram og jafnvel lengur er því er að skipta. Það eru spennandi tímar hjá félaginu og við í þjálfarateyminu erum spennt fyrir komandi tímum. Við viljum vera partur af þeim. Klárlega viljum við gera betur á næsta ári og byggja upp sterkt lið á því sem við eigum fyrir. Það eru spennandi tímar fram undan og ég myndi glaður vilja vera partur af því“ sagði Andri Hjörvar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert