Leikmenn gætu hætt vegna afskipta stjórnar KSÍ

Margir af reynslumestu leikmönnum íslenska karlalandsliðsins eru ósáttir við framgöngu …
Margir af reynslumestu leikmönnum íslenska karlalandsliðsins eru ósáttir við framgöngu stjórnar KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reyndustu leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gætu lagt landsliðsskóna á hilluna ef það kemur til frekari afskipta stjórnar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, af landsliðshópnum.

Þetta herma heimildir mbl.is.

Kolbeinn Sigþórsson var valinn í íslenska landsliðshópinn í nýliðnum landsleikjaglugga þar sem Ísland mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi á Laugardalsvelli í undankeppni HM.

Honum var aftur á móti meinað að taka þátt í verkefninu af stjórn KSÍ eftir að umræða um meint ofbeldisbrot hans gegn tveimur stúlkum á skemmtistað í Reykjavík árið 2017 var tekin til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Mikil óánægja var með þessa ákvörðun stjórnarinnar innan leikmannahópsins samkvæmt heimildum mbl.is. Fram undan eru tveir heimaleikir hjá íslenska liðinu í undankeppni HM; gegn Armeníu 8. október og Liechtenstein 11. október. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Gustað hefur hressilega í kringum Knattspyrnusamband Íslands undanfarna daga.
Gustað hefur hressilega í kringum Knattspyrnusamband Íslands undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný stjórn kjörin í október

Þá hafa tveir leikmenn karlalandsliðsins verið sakaðir um nauðgun á samfélagsmiðlum, án þess þó að hafa verið nafngreindir. Atvikið á að hafa átt sér stað árið 2010 en þeir voru ekki í íslenska landsliðshópnum í síðasta landsleikjaglugga.

Leiða má þó að því líkur að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, hafi hug á því að velja að minnsta kosti annan þeirra í hópinn fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein, ef þeir eru leikfærir.

Knattspyrnusambandinu er kunnugt um þær ásakanir sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum og gæti stjórn sambandsins beitt sér fyrir því að ákveðnir leikmenn yrðu ekki valdir.

Fari svo að stjórnin geri þá kröfu gætu margir af reyndustu leikmönnum liðsins kallað þetta gott og lagt landsliðsskóna á hilluna eftir farsælan feril með liðinu undanfarinn áratug.

Stjórn KSÍ sagði af sér á dögunum eftir að sambandið var sakað um þöggun og meðvirkni með meintum gerendum og verður ný bráðabirgðastjórn kjörin á aukaþingi sambandsins 2. október. 

Mikið mun mæða á nýrri stjórn enda fara landsleikirnir í október fram tæplega viku eftir að ný stjórn hefur verið kjörin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert