„Þá væri maður bara með frekju“

Eiður Aron Sigurbjörnsson í baráttu við Jóhann Helga Hannesson í …
Eiður Aron Sigurbjörnsson í baráttu við Jóhann Helga Hannesson í leik ÍBV og Þórs frá Akureyri í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tryggði sér um helgina sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu eftir tveggja ára fjarveru. Eyjamenn hafna í öðru sæti í 1. deildinni á eftir deildarmeisturum Fram, sem hafa verið í sérflokki á tímabilinu.

„Þetta er bara búið að vera gaman. Þegar það gengur vel hérna í Eyjum er helvíti gaman í kringum liðið og stemning á eyjunni. Þetta er búið að vera skemmtilegt sumar,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, í samtali við mbl.is.

Eftir dapra byrjun á tímabilinu þar sem fyrstu tveir leikirnir í deildinni töpuðust tóku Eyjamenn sig saman í andlitinu og hófu að spila betur. Eiður Aron sagði ýmislegt sem ÍBV hefði getað gert betur á tímabilinu en að annað sæti væri góð uppskera, sérstaklega með ótrúlegt tímabil taplauss liðs Fram í huga.

„Það eru alveg pottþétt hlutir sem við hefðum viljað gera betur í mörgum leikjunum. Byrjunin var náttúrlega ekki góð. Fram eru auðvitað að eiga eitthvað besta tímabil sem maður man eftir. Þeir eiga titilinn innilega skilið.

Ef maður væri að fara fram á að gera eitthvað mikið betur þegar við erum að fara upp væri maður bara með frekju. Heilt yfir erum við sáttir þó það séu auðvitað einhverjir hlutir sem má laga,“ sagði hann.

Eiður Aron samdi við uppeldisfélagið í desember á síðasta ári.
Eiður Aron samdi við uppeldisfélagið í desember á síðasta ári. Ljósmynd/ÍBV

Spurður hvað hafi lagt grunninn að góðu tímabili Eyjamanna sagði Eiður Aron: „Það er kannski erfitt að benda á eitthvað eitt. Við fundum einhvern veginn taktinn varnarlega fannst mér. Við vorum kannski ekkert að spila frábærlega en vorum bara þéttir. Við skoruðum einhvern veginn alltaf mörk.

Eftir þessa slöku byrjun var leikur á móti Aftureldingu úti, sem við unnum 5:0. Mér fannst hann kveikja í okkur. Við vorum ekki að fá á okkur mikið af mörkum. Þegar við skoruðum mark vorum við alltaf líklegir til þess að vinna leiki.“

Allir stórhuga

Þó ekki sé byrjað að huga að næsta tímabili í úrvalsdeildinni, enda núverandi tímabil í 1. deild enn þá yfirstandandi, sagði hann það morgunljóst að ÍBV færi ekki aftur upp til þess eins að fara beint niður aftur:

„Það er svo sem ekkert búið að ræða nein markmið. Við þurfum allir að setjast niður og ræða það þegar þetta tímabil er búið. Hvar við stöndum, hvað er hægt að laga og hvað við þurfum að gera.

Þar er hægt að fara yfir einhver markmið en við ætlum ekki að fara upp um deild til þess að fara beint aftur niður, það er nokkuð ljóst.

Við erum allir í þessu til þess að gera eitthvað í fótbolta. Ég held að við séum allir sammála í því; stjórn, leikmenn og þjálfarar. Það eru allir stórhuga held ég.“

Ekki sáttur við spiltímann hjá Val

Það vakti athygli þegar Eiður Aron samdi á ný við uppeldisfélagið fyrir tímabilið enda fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður sem varð Íslandsmeistari með Val þrjú af fjórum tímabilum sínum þar. Var það til þess að öðlast leikgleði á ný að hann ákvað að taka slaginn í 1. deildinni?

Eiður Aron skallar boltann frá í leik með Val.
Eiður Aron skallar boltann frá í leik með Val. Ómar Óskarsson

„Já bæði og. Ég var náttúrulega ekkert sérstaklega sáttur með spiltímann hjá Val á síðasta ári. Það var búinn að vera áhugi frá ÍBV. Það gekk ekki hjá þeim að fara upp á síðasta tímabili en þeir voru með mannskap í að fara upp. Mér fannst það krefjandi og skemmtilegt verkefni að koma aftur heim og taka þátt í uppbyggingunni og vera partur af þessu liði,“ sagði Eiður Aron.

Nú þegar ÍBV er komið upp í úrvalsdeild á ný er hann enda ekkert að hugsa sér til hreyfings. „Ég á tvö ár eftir af samningi mínum og ég er ekkert að pæla í neinu öðru. Svo er það alltaf þannig að ef það kemur eitthvað upp þá skoðar maður það en þetta er ekkert sem maður er að pæla í þannig séð,“ sagði Eiður Aron að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is