„Hetjurnar fyrir nokkrum árum skyndilega hræðilegar manneskjur“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska A-landsliðsins í knattspyrnu karla, var gestur í belgíska sjónvarpsþættinum Extra Time í gær. Þar ræddi hann þau erfiðu mál tengdum ofbeldi sem hafa skekið Knattspyrnusamband Íslands undanfarnar tvær vikur.

„Þetta hafa verið tvær erfiðustu vikurnar á mínum ferli. Ég finn fyrir þreytu,“ sagði Arnar Þór í þættinum.

Í honum var greint frá því að stjórn KSÍ hafi sagt af sér auk formannsins og sagðist Arnar Þór nánast einn eftir í brúnni. „Já, ég þurfti næstum því að taka fram skóna sjálfur, því það eru nánast engir leikmenn eftir til að velja.

Þegar ég tók við í desember var ég með draumalið á blaðinu mínu, það eru tveir leikmenn eftir af því. Formaðurinn er horfinn á braut, stjórnin er horfin á braut. Ég þarf að ráðfæra mig við yfirmann knattspyrnumála, sem er ég sjálfur.“

Hann hélt áfram: „Þrír þeirra eru meiddir en restin var ekki með vegna þessara mála. Þessir leikmenn hafa ekki allir verið ákærðir en eldri leikmönnum fer að þykja nóg um og fara að huga að því að segja þetta gott.

Það er möguleiki á að þeir hætti að spila með landsliðinu. Ef þú hefur spilað 80 landsleiki með vissum liðsfélögum og ég má ekki lengur velja þá í hópinn mun það enda með því að vinirnir tilkynna að þeir séu hættir.“

Saknar Kevin De Bruyne Íslands

Gylfi Þór Sigurðsson er á meðal þeirra sem var ekki valinn í síðasta landsliðshóp þar sem hann sætir rannsókn lögreglunnar á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn stúlku undir lögaldri.

„Ég get ekkert tjáð mig um málið, en sem þjálfari sakna ég auðvitað Kevin De Bruyne eða Eden Hazard Íslands. Hetjurnar fyrir nokkrum árum eru skyndilega útmálaðar sem hræðilegar manneskjur.

Ég var líka gagnrýndur. Ég tók ekki nógu fast til orða og mótmælum var beint gegn mér fyrir leikinn gegn Þýskalandi. Ég skil gagnrýnina og fólkið sem tjáir sig um þetta en ég hef engin svör,“ bætti Arnar Þór við.

„Þetta hefur verið stormur og ég var í honum miðjum. Ég varð allt í einu að sitja fyrir svörum hjá fjölmiðlum vegna málanna en ég gat ekki svarað. Á sama tíma þurfti ég að undirbúa liðið fyrir leiki. Ég varð að velja leikmenn á aldrinum 18-20 ára og sjá um leið til þess að þeir yrðu verndaðir.

Til dæmis á leikdegi var kallað til okkar: „Nauðgarar“. En þeir leikmenn sem voru í hópnum og starfsfólk mitt hafa ekkert með neitt slíkt að gera,“ sagði Arnar Þór einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina